Hefur sent inn beiðni um endurupptöku

Uhunoma Osayomore.
Uhunoma Osayomore. Ljósmynd/Aðsend

Lögfræðingur Nígeríumannsins Uhunoma Osayomore hefur skilað inn til kærunefndar útlendingamála endurupptökubeiðni í máli hans. 

Kær­u­nefnd út­lend­inga­mála og Útlend­inga­stofn­un hafa synjað Osayomore, sem er 21 árs og fórn­ar­lamb man­sals og kyn­ferðisof­beld­is jafn­framt því sem hann glím­ir við al­var­leg and­leg veik­indi, um alþjóðlega vernd og dval­ar­leyfi á grund­velli mannúðarsjón­ar­miða.

Magnús D. Norðdahl, lögmaður Osayomore, segir að endurupptökubeiðnin byggi á því að ekki hafi verið tekið fullt tillit til stöðu mannsins sem fórnarlambs mansals þrátt fyrir að frásögn hans, sem ekki var dregin í efa af stjórnvöldum, hafi ótvírætt borið með sér að hann væri slíkt fórnarlamb.

Þess er krafist að Osayomore verði veitt dvalarleyfi en til vara að Útlendingastofnun verði gert að taka það til nýrrar efnismeðferðar.

Magnús segir að kærunefndin taki einhverjar vikur í að svara endurupptökubeiðni en það geti verið allt frá tveimur vikum upp í vikur taldar í mánuðum.

Þrátt fyrir að Magnús hafi skilað inn endurupptökubeiðni í máli Osayomore er staða Nígeríumannsins enn sú sama og hún hefur verið síðustu daga, en fyrirætlanir stjórnvalda um brottvísun úr landi breytast ekki við að endurupptökubeiðni er lögð inn. Það þarf að fallast á hana, segir Magnús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert