Stjórnvöld ættu að leita til annarra framleiðenda

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir í pistli á Facebook-síðu sinni í kvöld að það séu mikil vonbrigði ef ekkert verði af samningum við lyfjarisann Pfizer. Hann segir jafnframt að viðræður líkt og þær sem nú virðast komnar á endastöð snúist ekki síður um pólitík en vísindi. 

„Miðað við það sem heyrst hefur um tregðuna til að semja við Íslendinga „fram fyrir röðina í Evrópu“ virðast skuldbindingar okkar gagnvart ESB ráða miklu um niðurstöðuna. Fyrirtækið taldi sig þurfa sterk rök fyrir því að semja sérstaklega við Ísland fram hjá þeim samningi. Eða e.t.v. bara einhver rök fyrir því að þurfa ekki að gera það. Enda hefur fyrirtækið verið í hörðum deilum við ESB og sætt hótunum af hálfu sambandsins eftir að í ljós kom að það hefði klúðrað samningum sínum við lyfjaframleiðandann,“ skrifar Sigmundur.

Hann kveðst telja að það geti á margan hátt verið kostur frekar en galli að lágt hlutfall þjóðarinnar hafi smitast og þar með myndað mótefni. „Það væri hægt að bólusetja alla þjóðina á skömmum tíma, opna landið og hefja eðlilegt líf. Slíkt raundæmi myndi draga úr óvissu og verða mikill hvati fyrir heimsbyggðina. Ef mörg smit í fámennu landi væru forsenda rannsóknar ættu stjórnvöld í San Marínó að hringja í Pfizer strax í fyrramálið.“

Ættu að leita til annarra framleiðenda

Sigmundur getur þess að slíkir samningar náist ekki nema með beinni aðkomu stjórnvalda og vísar til fordæmis Ísraels þar sem bólusetning sé langt komin. „Nú ættu stjórnvöld að leita samninga við aðra framleiðendur góðra bóluefna og helst fleiri en einn samtímis. Að sjálfsögðu á þeim forsendum að þau reynist örugg og virk, rétt eins og Bretar gerðu. Líklega væri ráð að líta til bóluefna sem falla ekki undir skuldbindinguna gagnvart ESB (þótt ESB-ríki á borð við Þýskaland hafi gefist upp á að fylgja þeirri skuldbindingu og leiti nú samninga á eigin vegum),“ skrifar hann og klykkir svo út með eftirfarandi hætti:  

„Hvað varðar athugasemdir um að það sé á einhvern hátt siðferðislega rangt að bólusetja hraðar í einu landi en öðru má benda á að þróunarlönd hafa gríðarlega hagsmuni af því að hagkerfi Vesturlanda komist aftur af stað. Hröð bólusetning á Vesturlöndum, þar sem hlutfall eldri borgara er hæst, myndi bjarga flestum lífum og gera löndunum kleift að aðstoða önnur lönd. Bretar sem sömdu við Pfizer þremur mánuðum á undan ESB hafa t.d. heitið meiri stuðningi við þróunarlöndin en ESB samanlagt.

Líklega er svo langt liðið síðan menn ferðuðust með flugvél að þeir hafa gleymt reglunni „setjið súrefnisgrímuna fyrst á ykkur áður en þið aðstoðið aðra”.“

mbl.is