Pfizer fílaði ekki pressuna

Kári Stefánsson að loknum fundi við lyfjaframleiðandann Pfizer.
Kári Stefánsson að loknum fundi við lyfjaframleiðandann Pfizer. mbl.is/Snorri

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, kveðst ekkert hafa við það að athuga að Pfizer meti það sem svo, að hér á landi sé ekki til nægilega mikils að vinna til að réttlætanlegt sé að ráðast í framkvæmd bólusetningarrannsókn.

Það var að heyra á forsvarsmönnum fyrirtækisins á fundi með Íslendingum í dag að ólíklegt væri að af framkvæmdinni yrði.

„Þetta er ekki spurning um já eða nei, heldur um það hvort fá megi nægilega þekkingu úr rannsókninni svo að hægt sé að réttlæta hana,“ segir Kári í samtali við mbl.is.

„Þeirra mat er að svo sé ekki og ég er sammála þeim.“

Kári telur ólíklegt að nokkuð breytist, að það „þyrfti að vera einhvers staðar laus skrúfa“ hjá Pfizer, til að þeir ákveðu upp úr þessu að láta verða af þessu.

Hinn þráláti orðrómur

Undanfarnar vikur hafa fjölmargir Íslendingar talað sín á milli eins og varla nokkuð geti úr þessu komið í veg fyrir að þjóðin verði fyrir valinu sem viðfang þessarar hjarðónæmisrannsóknar. Fjölmiðlar hafa flutt misnákvæmar fréttir um líkindi og ólíkindi í þessu máli.

Kári telur umræðuna ekki hafa verið til bóta.

„Það var talað of mikið um þetta og óvarlega, sem menn hefðu helst ekki átt að gera. Ég held að það hafi verið fjallað of mikið um þetta í pressunni fyrir smekk Pfizer og ég tel að það geti hafa haft einhver áhrif, ef ekki úrslitaáhrif.“

Er þetta þá okkur að kenna?

„Þetta er engum að kenna,“ segir Kári. „Það hefði einfaldlega átt að fara að þessu með meiri leynd en gert var.“

Sjálfur hefur Kári ekki verið til viðtals hjá fjölmiðlum um nokkurra vikna skeið, aldrei þessu vant. Hann hefur haft grunsemdir um neikvæða niðurstöðu í málinu í smá tíma, segir hann. 

„Ég hef ekki tjáð mig um þetta í nokkurn tíma, þar sem mér fannst þetta verða hægt og hægt vafasamara.“

Kári segir að nú taki við bið eftir bóluefnum, í …
Kári segir að nú taki við bið eftir bóluefnum, í takt við aðrar þjóðir. mbl.is

Hefði verið gaman

Kári telur ekki að hugur Pfizer breytist úr þessu.

Ertu leiður?

„Hér um bil. Ekki alveg. En þetta hefði verið gaman.“

Þar sem upplýsingar um áhrif fjöldabólusetninga fengjust ekki greiðlega hér á landi vegna lágrar smittíðni reyndu Kári, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Már Kristjánsson læknir að benda á aðra mögulega þætti sem mætti rannsaka hér á landi.

Þar hefði getað verið spurt hvort erfðir hefðu eitthvað að segja um áhrif bólusetningar og sömuleiðis nefnir Kári möguleika í rannsóknum á niturbasaröðum í veirunni.

Allt kom fyrir ekki. Óljóst var hver aðkoma Íslenskrar erfðagreiningar hefði verið að rannsókninni, ef af henni hefði orðið.

Úr því að svo er komið er ljóst að bíða þarf afhendingar bóluefnis á grundvelli þeirra samninga sem Ísland hefur sannarlega skrifað undir. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kveðst enn treysta þeirri spá að meirihluti þjóðarinnar muni hafa fengið bóluefni í sumar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert