Spyr hvort Ragnar berjist á réttum stað

Helga Guðrún Jón­as­dótt­ir.
Helga Guðrún Jón­as­dótt­ir. Ljósmynd/Aðsend

Ég tel að félagið hafi undir forystu núverandi formanns fjarlægst svolítið félagsmenn og stefnu félagsins,“ segir Helga Guðrún Jónasdóttir, sem býður sig fram til formanns VR. Sitjandi formaður er Ragnar Þór Ingólfsson en ekki er ljóst hvenær kosið verður um formann.

Helga, sem starfaði m.a. sem upp­lýs­inga­full­trúi Fjarðabyggðar og sam­skipta­stjóri Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga starfaði sem ráðgjafi VR um alda­mót­in og bauð sig fram til for­manns VR árið 2011 en tapaði for­manns­kjöri naum­lega fyr­ir Stefáni Ein­ari Stef­áns­syni.

Helga segist vilja efla og styrkja starfsemi félagsins og setja meiri kraft í kjarabaráttu. Hún segir að formanni VR beri að nota styrkinn sem fylgir því að vera formaður öflugasta stéttarfélags landsins til að bæta kjör félagsmanna en ekki eigin stöðu á flokkspólitískum vettvangi.

„Ragnar er flottur kall og hefur alveg sínar skoðanir sem hann hefur rétt á. Það er hins vegar spurning hvort hann sé á réttum vettvangi. Mér finnst að hann eigi frekar að fara með þessa baráttu í flokkspólitík þar sem hún á heima,“ segir Helga og heldur áfram:

„Hann á að sjálfsögðu að berjast fyrir sínum skoðunum en ég spyr mig er formannsstóll stéttarfélags VR rétti staðurinn?“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helga segir mikilvægt að félagsmenn VR fái val og segir að það séu ekkert allir sammála orðræðu Ragnars. 

Helga vill að aðilar vinnumarkaðarins taki höndum saman og tileinki sér þau vinnubrögð í kjarasamningum sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Norræna vinnumarkaðslíkanið hafi stuðlað þar að efnahagslegum stöðugleika um áratugaskeið og sé jafnframt ein helsta undirstaða norræna velferðarkerfisins.

„Ég er ekki að bjóða mig fram nema af því að ég tel mig hafa möguleika á að vinna. Ég vinn náttúrulega ekki nema fólk sé sammála mér. Hinn almenni VR félagsmaður ræður þessu á endanum,“ segir Helga sem segist bjóða sig fram til að sigra.

Hún hefur trú á því að það þurfi að nálgast stöðu þeirra á lægstu laununum með öðrum hætti en gert er. Telur ekki að það eigi að rífast um hver allra lægstu launin eru; við ættum að gera eins og nágrannaþjóðir og reikna lágmarksframfærsluviðmið. Allir eiga að geta lifað af laununum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert