Umfjöllunin hafi ekki orðið til í tómarúmi

Sigmar Guðmundsson fjölmiðlamaður við réttarhöldin í dag.
Sigmar Guðmundsson fjölmiðlamaður við réttarhöldin í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sig­mar Guðmunds­son fjölmiðlamaður segir að saga Aldísar Schram um meinta ólögmæta frelsissviptingu og meint sifjaspell hafi átt erindi við almenning, sérstaklega þar sem sögur af meintum kynferðisbrotum Jóns Baldvins Hannibalssonar föður hennar hafi verið orðnar eins margar og raun bar vitni.

Þetta sagði Sigmar við skýrslutöku fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Jón Baldvin stefndi honum, Aldísi og Ríkisútvarpinu fyrir ummæli sem Aldís lét falla í Morgunútvarpi Rásar tvö, ummæla sem hún lét falla á Facebook sem og fréttaflutning Sigmars af því sem Aldís hafði sagt í viðtalinu og á Facebook.

Nokkrum dögum áður en viðtalið við Aldísi birtist, þann 19. janúar 2019, hafði Sigmar tekið viðtal við Guðrúnu Harðardóttur, sem einnig hefur sakað Jón Baldvin um kynferðisbrot. Sigmar sagði að viðtal við Aldísi hefði verið rökrétt framhald af því viðtali.

Þeirra mat að Aldís ætti erindi í viðtal

Sigmar sagði að fjölskylda Aldísar hefði lengi haldið því fram að hún væri geðveik, þrátt fyrir að sérfræðingar væru ekki á einu máli um það. Sigmar sagðist ekki leggja mat á geðheilsu Aldísar en sagði að hann og Helgi Seljan hefðu metið það svo að Aldís væri í góðu jafnvægi, með fulla og óskerta dómgreind, þegar þeir ræddu við hana.

„Það var bara okkar mat að kona sem þyrfti að sitja undir því að vera kölluð geðveik í opinberri umræðu ætti erindi í viðtal,“ sagði Sigmar við réttarhöldin í dag.

„Svona umfjöllun verður ekki til í einhverju tómarúmi, hún verður til í því andrúmslofti sem er í samfélaginu,“ sagði Sigmar við réttarhöldin í dag og vísaði þá til þeirrar vitundarvakningar sem varð í samfélaginu í kjölfar Metoo-byltingarinnar þar sem konur stigu fram og sögðu frá kynferðisofbeldi.

Reyndi ítrekað að fá viðbrögð

Eins og fram kom í máli Aldísar í dag hefur því verið haldið fram að ásakanir hennar á hendur föður sínum um kynferðisofbeldi séu einhvers konar ranghugmyndir. Í sínum vitnisburði sagði Sigmar að gögnum og læknum bæri ekki saman um það hvort Aldís væri með geðhvarfasýki og þótt hún væri með geðhvarfasýki þýddi það ekki að hún væri í „stöðugum ranghugmyndaheimi“. Á milli maníu og þunglyndis kæmu tímabil „eðlilegs“ hugarástands.

Sigmar segir að hann hafi ítrekað reynt að fá viðbrögð við viðtalinu frá Jóni Baldvini áður en það birtist, með símtölum, smáskilaboðum og tölvupósti. Það bar ekki árangur, að hans sögn. Jón Baldvin sagði í réttarhöldunum fyrr í dag að hann vissi ekki til þess að tilraunir hefðu verið gerðar til þess að láta hann vita af viðtalinu.

Sigmar sagðist hafa sett sig í samband við Aldísi og hún samþykkt að hitta þá Helga á tveimur fundum. Á fyrri fundinum lét Aldís Helga og Sigmar fá gögn máli sínu til stuðnings.

Sigmar sagði að fjölmiðlamenn hefðu líklega brugðist Aldísi í gegnum tíðina vegna þess að fjölskyldan hélt því fram að hún væri geðveik. Í umfjöllun Helga og Sigmars kom fram að Aldís hefði fengið vottorð um að hún væri ekki með geðhvarfasýki.

Mjög alvarlegar ásakanir

Spurður um það hvernig staðið var að heimildaöflun sagði Sigmar að þeir Helgi hefðu nálgast málið þannig að um væri að ræða sögu Aldísar. Þá sagði Sigmar að hann væri fjölmiðlamaður sem flytti fréttir og mæti það hvað ætti erindi til almennings. Í facebookhópnum „#metoo Jón Baldvin Hannibalsson“ komu fram alvarlegar ásakanir á hendur honum og benti Sigmar á að frásögn Aldísar væri hin sama.

„Allar þessar ásakanir sem hafa komið fram í þessum facebookhóp og varða Jón Baldvin eru mjög alvarlegar,“ sagði Sigmar. Hann sagði að ef hennar saga hefði komið fram ein og sér hefði málið litið öðruvísi við. Saga hennar skoðast í samhengi við aðrar sögur sem komu fram um meint brot Jóns Baldvins, að sögn Sigmars, sem taldi það skyldu fjölmiðla gagnvart almenningi að skýra frá því að ásakanirnar hefðu komið fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert