Kjötframleiðsla vex samhliða neyslu

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra segir niðurstöður skýrslunnar sýna sterka stöðu …
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra segir niðurstöður skýrslunnar sýna sterka stöðu innlendrar matvælaframleiðslu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kjötframleiðsla vex samhliða neyslu og innlend matvælaframleiðsla stendur fyrir stórum hluta fæðuframboðs á Íslandi og þar einkum próteini. Garðyrkjan sér fyrir um 43% af framboði grænmetis, búfjárrækt um 90% af kjöti, 96% af eggjum og 99% af mjólkurvörum. Kemur þetta fram í skýrslu Landbúnaðarháskóla Íslands um fæðuöryggi.

Framleiðsla hverrar greinar á misstóran hlut í fæðuframboði á Íslandi en framboð á fiski er langt umfram innlenda eftirspurn. Hlutdeild innlendrar framleiðslu er 43% í grænmeti, 90% í kjöti, 96% í eggjum og 99% í mjólkurvörum en aðeins 1% í korni til manneldis.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði niðurstöður skýrslunnar sýna sterka stöðu innlendrar matvælaframleiðslu, við setningu fundarins.

Auðlindir þurfa að vera til staðar

Þá hefur kjötframleiðsla farið vaxandi á Íslandi samhliða aukinni neyslu frá árunum 1983 til 2019, auk þess sem eggjaframleiðsla hefur aukist frá 1077 til 2019 auk mjólkurframleiðslu.

„Kjötframleiðsla hefur vaxið í takt við fólksfjölgun og ferðamannastraum,“ sagði Jóhannes Sveinbjörnsson dósent, sem kynnti skýrsluna á opnum fundi á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. 

Skýrsluhöfundar telja að eiginlegt fæðuöryggi Íslendinga sé háð m.a. þeirri forsendu að auðlindir framleiðslunnar séu til staðar, s.s. fiskistofnar og land til ræktunar, auk þekkingar á framleiðslu og að tæki til framleiðslu séu til staðar en nánar má lesa um niðurstöður skýrslunnar á vef Stjórnarráðsins.

mbl.is