Ísland heldur stöðu sinni

Ísland heldur sæti sínu meðal ríkja Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins sem það ríki sem er með fæst kórónuveirusmit á hverja 100 þúsund íbúa síðustu 14 daga. Þróunin er mjög jákvæð í Noregi en langflest smit eru í Portúgal. Tekið skal fram að Bretland er ekki lengur talið með í þessum upplýsingum frá Sóttvarnastofnun Evrópu enda hvorki í ESB né EES.

Nýgengi smita á Íslandi er 8,4 samkvæmt tölum Sóttvarnastofnunar Evrópu en upplýsingarnar eru frá því við lok síðustu viku. Miðað við tölur sem birtar voru á covid.is í gær er nýgengi innanlands 1,4 og 5,5 á landamærunum. Í Noregi er nýgengið 69,25 og í Finnlandi 97,66 en þessar þrjár þjóðir eru þær einu í Evrópu þar sem nýgengi smita er undir 100. 

Nýgengi smita í Danmörku er 108,94 og 394,12 í Svíþjóð.

Í Portúgal en nýgengi smita 1.190,09, í Tékklandi 914,58 og á Spáni 843,05. Þessi þrjú ríki hafa sérstöðu hvað varðar fjölda smita í Evrópu en næst á eftir þeim kemur Slóvakía með 762,22. 

Ef tölur frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni eru skoðaðar sést að smitin eru flest í Frakklandi, Rússlandi og Bretlandi í gær en þar ekki tekið tillit til fjölda íbúa, það er hversu mörg smit eru á hverja 100 þúsund íbúa. 

Kort ECDC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert