Oktavía Hrund sækist eftir sæti á lista Pírata

Oktavía Hrund Jónsdóttir er í framboði fyrir Pírata í Reykjavík.
Oktavía Hrund Jónsdóttir er í framboði fyrir Pírata í Reykjavík.

Oktavía Hrund Jónsdóttir býður sig fram í prófkjöri Pírata í Reykjavík. 

Oktavía hefur verið virk í starfi Pírata síðan hún flutti heim til Íslands árið 2016 og hefur gegnt ýmsum trúnaðarstöðum fyrir flokkinn samkvæmt fréttatilkynningu.

Hún er einn stofnenda Feminískra Pírata, sem er aðildarfélag Pírata á Íslandi, og hefur setið þar í stjórn og gegnt formennsku. Hún sat í stjórn Pírata í Reykjavík og í framkvæmdaráði Pírata árið 2017 en hóf í kjölfarið stjórnarsetu í evrópskum Pírötum sem varði í þrjú ár. Þar af var hún formaður og varaformaður sitt hvort árið. Hún var pólitískur ráðgjafi þingflokks Pírata á árunum 2016 og 2017. Oktavía hefur setið tvisvar á Alþingi þegar hún leysti Smára McCarthy af á síðasta kjörtímabili og hefur verið varaþingmaður allt kjörtímabilið sem nú er að ljúka.

„Hún telur að Píratar tákni von um pólitíska siðbót og jákvæðar breytingar á Íslandi og  að grunngildi Pírata séu leiðarvísir til að vinna bug á spillingu, sem sé því miður rótgróin á Íslandi. Hún telur að nýja stjórnarskráin sé þar mikilvægasta tækið ásamt beinu lýðræði og valdeflingu borgaranna. Hún ólst að mestu upp í Danmörku, en Ísland var alltaf fyrirheitna landið,“ samkvæmt fréttatilkynningu.

 „Oktavía Hrund vann lengi við að styrkja frjálsa fjölmiðlun á svæðum heims þar sem skoðanakúgun ríkir. Hún hefur því persónulega upplifað að frelsi fjölmiðla til að beina ljósi þangað sem myrkur ríkir og afhjúpa misnotkun valds er undirstaða frjálsra þjóðfélaga. Sá er uppruni hugsjónar hennar sem hún fann hljómgrunn fyrir meðal Pírata. Oktavía býr að sjónarhorni manneskju sem elst upp í samfélagi þar sem spilling, frændhygli og óvönduð vinnubrögð eru ekki liðin og langar til að færa fram það sjónarhorn til að Ísland verði í raun fyrirheitna landið,“ segir ennfremur í fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert