Skoða samninga um bóluefni í sérstöku herbergi

Helga Vala Helgadóttir á Alþingi.
Helga Vala Helgadóttir á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Velferðarnefnd Alþingis ákvað á fundi sínum í morgun að samningar íslenska ríkisins, ESB og framleiðenda bóluefna við Covid-19 verði skoðaðir af nefndarfólki í þar til gerðu herbergi á nefndarsviði Alþingis. 

Í stað þess að sitja saman á fundi og fara yfir gögnin var þetta ákveðið vegna þess að lesefnið, sem er ekki rafrænt, er flókið og verður ekki afgreitt á einum fundi, að sögn Helgu Völu Helgadóttur, formanns velferðarnefndar.

Slíkt hafi oft verið gert áður við sambærilegar aðstæður. „Með fullri virðingu grunar mig að þetta verði svolítið torf fyrir almúga eins og mig,“ segir Helga Vala.

Trúnaður ríkir samningana. Um er að ræða fimm samninga Íslands við framleiðendur bóluefna, samninga Íslands við ESB og samninga ESB við framleiðendur.

Heilbrigðisstarfsmaður undirbýr bólusetningu með bóluefni AztraZeneca sem þróað var af …
Heilbrigðisstarfsmaður undirbýr bólusetningu með bóluefni AztraZeneca sem þróað var af Oxford háskóla. AFP

Þegar nefndarmenn hafa skoðað samningana verða fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins boðaðir á fund velferðarnefndar þar sem rætt verður um stöðu mála í tengslum við bólusetningar.

Aðspurð segir Helga Vala að ekkert hafi verið rætt á fundinum í morgun um hjarðónæmisrannsókn lyfjaframleiðandans Pfizer hér á landi sem ekkert verður af. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert