Uppbygging á grænni borg fyrir 300 milljarða

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á næstu tíu árum ætla Reykjavíkurborg og tengdir aðilar að fjárfesta 300 milljörðum króna í að byggja upp græna borg. Mestu fjárfestingarnar verða á næstu þremur árum.

Þetta kom fram í máli Dags B. Eggertssonar borgarstjóra á kynningarfundi um græna planið og fjárfestingu Reykjavíkur og fyrirtækja borgarinnar.

Dagur sagði borgina vera að þróast í græna átt og að þörf sé á sóknaráætlun þess efnis. Hann sagði áskoranir vera fyrir hendi, bæði vegna samdráttar í landsframleiðslu og atvinnuleysis, en auk þess umhverfislegar áskoranir m.a. í tengslum við loftslagsbreytingar.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á kynningarfundinum.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á kynningarfundinum. Skjáskot

Hann sagði borgina vilja flýta fjárfestingum eins mikið og hægt er á næstu árum og bætti við að framtíðarsýn borgarinnar væri kolefnislaust borgarsamfélag sem væri blómlegt og heilbrigt. Verið væri að fjárfesta í vaxandi borg, öflugri uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og grænum innviðum samgangna.

Sömuleiðis nefndi Dagur að gríðarleg fjárfesting væri fyrirhuguð í stafrænni umbreytingu á þjónustu borgarinnar.

Horft yfir Úlfarsárdal og til norðurs.
Horft yfir Úlfarsárdal og til norðurs. mbl.is/Sigurður Bogi

1.000 íbúðir í byggingu á hverju ári

Sem dæmi um mestu fjárfestingar borgarinnar á næstu mánuðum sagði hann að 320 milljónir króna færu í innviði í Úlfarsárdal, 250 milljónir í innviði fyrir íbúðabyggð á Ártúnshöfða, auk þess sem hann nefndi m.a. Bryggjuhverfið og Vogabyggð.

Hann sagði borgina sjá fyrir sér að a.m.k. 1.000 íbúðir fari í byggingu á hverju ári og að um 3.000 íbúðir verði í byggingu á hverjum tíma næstu árin í Reykjavík.

Til stendur að leggja 2,7 milljarða króna í samgönguinnviði í borginni á þessu ári. Þar af fara 600 milljónir króna í samgöngusáttmála. Endurnýjuð hjólreiðaætlun verður lögð fram. „Við ætlum að verða hjólreiðaborg sem er framúrskarandi á alþjóðlegan mælikvarða,“ sagði borgarstjórinn.

Miklabraut og Sæbraut í stokk

Hann benti á að borgarlínan verði fyrirferðarmikil þegar fyrstu áfangarnir þar fara af stað. „Við munum líka sjá ótrúlega jákvæða umbreytingu borgarinnar með að Miklabraut og Sæbraut fari í stokk,“ sagði hann og nefndi að umferðin verði rólegri á yfirborðinu. Hjóla- og göngustígar verði betri og að götur þróist í borgargötur með grænna yfirbragði og aðstöðu fyrir alla samgöngumáta.

Dagur minntist á fjölda uppbyggingarsvæða í Vatnsmýrinni í tengslum við atvinnulóðir. Langstærsta svæðið væri Landspítalinn en Vísindagarðasvæði Háskóla Íslands væri einnig mjög stórt. Einnig er vonast eftir meiri uppbyggingu á svæði Háskólans í Reykjavík á næstunni.

Einnig nefndi hann kvikmyndaþorpið í Gufunesi. Ég er ekki viss um að fólk átti sig á því hvað við erum hratt að þróa kvikmyndaþorp,“ sagði hann og bætti við að fleiri fyrirtæki en RVK Studios væru komin þangað. Fleiri lóðir til umsóknar verði auglýstar á næstu vikum.

Gufunes.
Gufunes. Ljósmynd/Aðsend

Útivistarsvæði á Hólmsheiði

Borgin ætlar jafnframt að setja 10 milljarða króna á þremur árum í stafræna umbreytingu, þ.e. uppfærslu upplýsingakerfa og breytta þjónustu. „Við erum að tala um einföldun á því að nálgast borgina,“ sagði hann.

Lýsing í borginni mun taka stakkaskiptum með LED-væðingu götuljósa og nýtt útivistarsvæði á Hólmsheiði verður opnað. Það kallast Austurheiðar. „Þetta er kannski nýja Heiðmörkin okkar,“ sagði hann og nefndi einnig að þrír milljarðar króna verði settir í innviði grunnskóla árið 2021. Meðal annars eru fyrirhugaðir nýir grunnskólar í Skerjafirði, Vogabyggð og á Ártúnshöfða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert