2.400 skammtar frá AstraZeneca bárust í morgun

Alls hafa 5.900 skammtar af bóluefni borist til Íslands síðan …
Alls hafa 5.900 skammtar af bóluefni borist til Íslands síðan á miðvikudag. Þar af 2.400 frá AstraZeneca. AFP

Alls hafa 5.900 skammtar af bóluefni verið fluttir til Íslands á síðustu dögum og til stendur að nota þá alla til að bólusetja forgangshópa 2, 3, 4 og 6 í næstu viku samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis.

Á miðvikudaginn bárust 2.300 skammtar af bóluefni Pfizer til landsins. Daginn eftir 1.200 skammtar af bóluefni Moderna og nú í morgun bárust 2.400 skammtar af bóluefni AstraZeneca. Þetta staðfestir Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica, í samtali við mbl.is.

Sendingar að stækka

Eins og frægt er orðið hafa tafir orðið í framleiðsluferlinu hjá AstraZeneca sem komið hefur niður á afhendingu og fyrirhugaðri afhendingu til Evrópusambandsins. Ísland er með samning við ESB um dreifingu og afhendingu bóluefnis.

Spurð hve mikið af bóluefni er nú þegar komið til lands miðað við upphaflegar áætlanir segir Júlía að magnið sé svipað og lagt var upp með í fyrstu.

„Ég held þetta sé bara svipað og til stóð. Það eru komnir um 26.000 skammtar til landsins. Planið næstu vikurnar er heldur að auka í og sendingarnar eru að stækka,“ segir Júlía.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert