„Hundfúlt og mikil vonbrigði“

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga.
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga. mbl.is/Arnþór Birkisson

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, er ekki á lista Samfylkingarinnar sem verið er að kynna á allsherjarfundi Samfylkingarinnar. Hann segir þetta hundfúlt og mikil vonbrigði.

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að Guðmundur væri ekki á listanum og ástæðan væri meint óvissa um kjörgengi hans.

Guðmundur tjáir sig um málið á Facebook í dag en fundur Samfylkingarinnar hófst klukkan 13.

„Auðvitað væri ég að ljúga ef ég segði að þetta væri ekki hundfúlt og mikil vonbrigði. Í fyrradag var ég kominn með flott sæti á lista en nú er ég ekki inni. Því verður ekki breytt úr þessu held ég. Það eru mikilvæg mannréttindi einstaklinga í lýðræðisríki að bjóða sig fram í kosningum. Takmarkanir á þeim rétti þurfa að vera málefnalegar, skýrar og afdráttarlausar.

Ég ætla ekki mikið að hugsa um þetta núna um helgina annað en að mæta á allsherjarfund Samfylkingarinnar í RVK núna á eftir en mun svo taka stöðuna á þessum málum seinna. Varðandi kjörgengi mitt snýst málið um það hvort ég hafi lokið afplánun að fullu og hafi þar með óflekkað mannorð í skilningi stjórnarskrár, sbr. 4. gr. laga um kosningar til Alþingis,“ skrifar Guðmundur og segir jafnframt:

„Nokkur atriði skipta máli:

1. Lög sem skerða persónu- og þá atvinnufrelsi skulu skýrð þröngt og þannig að þau séu borgara í hag.

2. Lagaáskilnaðarregla 75. gr. stjsk. gerir kröfu um að skerðingar séu greindar í lögunum sjálfum, ekki í greinargerð með lögunum. Lagaáskilnaðarreglan gildir um hugtök og skýringar á þeim.

3. Gerð er krafa um að almannahagsmunir búi að baki skerðingu á réttindum skv. 75. gr. stjskr. Þeir eru ekki skýrðir í lögunum.

4. Afplánun og lok hennar er skilgreint í lögum um fullnustu refsinga. Það sem fellur undir afplánun kemur fram í III. kafla laganna. Lok afplánunar eru í 36. gr. laganna og þar segir að hún eigi sér stað með því að fanga sé sleppt kl. 8 í lok afplánunar. Manni sem hlýtur reynslulausn og fer á reynslutíma er sleppt við veitingu reynslulausnar og í upphafi reynslutíma.

5. Hugtökin reynslulausn og reynslutími falla ekki undir afplánun samkvæmt lögum um fullnustu refsinga. Hvergi í öðrum lögum er reynslulausn og reynslutími talið til afplánunar.

6. Reynslulausn og reynslutími er hvort sitt hugtakið.

7. Vegna hinna miklu krafna sem gerðar eru til lagaákvæða sem skerða mannréttindi er ekki pláss fyrir túlkun á hugtökum sem ekki byggja beinlínis á lagatexta og eru skýrð þar með nákvæmum og augljósum hætti.

8. Margir íslenskir dómar hafa fjallað um sambærileg mál.

9. Mannréttindadómstóllinn hefur einnig fjallað um þessi mál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert