Ýmislegt sem Rósa Björk vill „gleyma sem fyrst“

Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þessi reynsla síðustu vikurnar hefur kennt mér margt. Ýmislegt gerðist sem ég vil gleyma sem fyrst en annað fer inn á reynslubankann og nýtist vel í næstu skref í stjórnmálunum.“

Þetta segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Samfylkingar, en fyrr í dag greindi flokkurinn frá því að hún yrði í öðru sæti á framboðslista í Reykjavíkurkjördæmi suður fyrir alþingiskosningarnar í haust.

„Þar verð ég hluti af öflugum hópi sem ætlar að sækja fram fyrir Samfylkinguna og stefnir á sigur jafnaðarfólks í kosningunum þar sem ég mun halda mínum hjartans málum í pólitíkinni hátt á lofti,“ skrifar Rósa á Facebook.

Á ýmsu hef­ur gengið við skip­an list­ans, en ný aðferð var notuð til þess að finna fólk á hann, þar á meðal óbind­andi skoðana­könn­un, sem sum­ir fram­bjóðend­ur eru sagðir hafa smalað í en aðrir ekki. Þannig hafi niður­stöðurn­ar verið mjög mis­hag­felld­ar fram­bjóðend­um, en upp­still­ing­ar­nefnd­in studd­ist að veru­legu leyti við þær um röð í efstu sæti.

Ótal símtöl í lykilfólk

Rósa Björk bendir á að hún hafi gefið það út áður að hún vildi leiða lista Samfylkingar í Suðvesturkjördæmi. Þar hafi hún starfað sem þingmaður og oddviti síðan 2016 og þar áður í þrjú ár sem virkur varaþingmaður.

„Ég hringdi ótal símtöl í lykilfólk í kjördæminu og félaga í flokknum, almenna kjósendur en ekki síður fólk sem var tilbúið að ganga til liðs við Samfylkinguna. Það er skemmst frá því að segja að mér var afar vel tekið, sem gladdi mig mjög. En eftir því sem á leið rann upp fyrir mér að harðasti kjarninn sem myndaði uppstillingarnefndina í Kraganum væri ekki líklegur til að bjóða konu sem væri svo nýlega gengin í flokkinn oddvitasætið,“ skrifar Rósa.

„En ég hlakka mjög mikið til þess að fá tækifæri til að ræða við kjósendur í Reykjavík næstu mánuðina og leggja mitt af mörkum fyrir græna atvinnustefnu, baráttuna gegn loftslagsbreytingum og fyrir femínisma og mannréttindi og önnur hjartans mál sem verða að komast sterkar á dagskrá en nú.

Takk öll fyrir hvatningu og stuðning og nú er að líta björtum augum fram á veginn og breyta samfélaginu til hins betra fyrir okkur öll!“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert