Ásthildur Lóa í framboð fyrir Flokk fólksins

Ásthildur Lóa Þórsdóttir er gengin í Flokk fólksins.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir er gengin í Flokk fólksins. Ljósmynd/Aðsend

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, er gengin í Flokk fólksins og mun hún gefa kost á sér í alþingiskosningunum í haust. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum sjálfum og má því ætla að hún taki sæti á lista.

Ásthildur er kennari að mennt og starfar sem grunnskólakennari. Hún hefur verið virk í réttindabaráttu kennara og var kjörin í stjórn og samninganefnd grunnskólakennara 2018. 

Þá hefur hún gegnt formennsku í Hagsmunasamtökum heimilanna frá árinu 2017 og barist ötullega fyrir réttindum fólks í kjölfar efnahagshrunsins 2008, ekki síst þeirra sem misstu heimili sitt.

Ásthildur skipaði 3. sæti á lista Framsóknarflokksins í borgarstjórnarkosningum árið 2018 en þar hlaut flokkurinn engan mann kjörinn. Hún bauð sig fram til formennsku í Neytendasamtökunum sama ár en hafði ekki erindi sem erfiði.

Hún er gift Hafþóri Ólafssyni, söluráðgjafa hjá Exton ehf., og eiga þau tvo uppkomna syni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert