Brú út í Viðey áformuð fyrir 2030

Vinsælt er að fara út í Viðey, en þangað hefur …
Vinsælt er að fara út í Viðey, en þangað hefur þurft að fara með ferju hingað til. Ljósmynd/Ragnar Th Sigurdsson

Göngu- og hjólabrú frá Gufunesi yfir í Viðey er á áætlun hjá Reykjavíkurborg, en brúin er á gildandi aðalskipulagi borgarinnar fyrir 2010-2030. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hélt á föstudag erindi á kynningarfundi um græna plan borgarinnar og fjárfestingar á næstunni.

Nefndi hann þar brúna og var kominn tímarammi á framkvæmdina árin 2028-2030 og kostnaðaráætlun upp á 1,4 milljarða.

Í erindinu sagði Dagur að brúin væri hugmynd á 10 ára ætlun borgarinnar í grænum fjárfestingum. „Við sjáum fyrir okkur að tengja Gufunes og Viðey með göngu- og hjólabrú inn á þessari 10 ára áætlun og að Viðey verði þannig aðgengilegri og nýtist okkur sem það dásamlega friðar- og útivistarsvæði sem eyjan er.“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á kynningarfundinum.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á kynningarfundinum. Ljósmynd/Skjáskot af kynningarfundinum

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem brúin kemur til tals, en áður hefur hún verið á aðalskipulagi, en lítið hefur þó gerst í átt að byggingu hennar, fyrr en mögulega núna.

Í svari borgarinnar við fyrirspurn mbl.is um frekari upplýsingar um framkvæmdina kemur fram að ekki hafi verið unnið deiliskipulag eða útfærsla á brúnni og gera megi ráð fyrir að efnt verði til samkeppni um útfærsluna síðar.

Brúin á aðalskipulagi. Rauðu og svörtu punktalínurnar væru göngu- og …
Brúin á aðalskipulagi. Rauðu og svörtu punktalínurnar væru göngu- og hjólaleiðir sem myndu tengjast brúarsamgöngunum, en hvíta og svarta línan er Sundabraut. Kort/Aðalskipulag Reykjavíkur

Brúin á að tengjast inn á Gufunessvæðið, en þar er nú áformuð talsverð uppbygging undir merkjum kvikmyndaþorps fyrir skapandi greinar. Alþjóðleg samkeppni um svæðið er nú í gangi, en búast má við niðurstöðum úr samkeppninni á vordögum.

Í svari borgarinnar segir að um frumkostnaðaráætlun sé að ræða, en horft sé til þess að hún verði 600-650 metra löng fyrir hjólandi og gangandi. Þá tengist hún inn á hjóla- og göngustíg sem liggja á meðfram strandlengjunni úr Grafarvogi og Bryggjuhverfi. Miðað við hugmyndir í skýrslu verkefnahóps um Sundabraut sem samgönguráðherra kynnti nýlega myndi sá stígur þvera Sundabrautina austan við Sundabrú líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Í skýrslu starfshóps um Sundabraut má sjá þessa hugmynd að …
Í skýrslu starfshóps um Sundabraut má sjá þessa hugmynd að brú frá Holtavegi yfir Kleppsvíkina og myndu göngu- og hjólastígar þar tengjast inn á leiðina að Gufunesi og þar með brú yfir í Viðey. Graf/mbl.is

Eins og fyrr segir er brú yfir í Viðey ekki ný af nálinni, en hún var nokkuð rædd á fyrstu árum aldarinnar. Gagnrýndu þá meðal annars landeigendur í Viðey og náttúruverndar- og fuglaverndarsamtök hugmyndina og sögðu brú geta haft áhrif á fuglalíf og að aukin umferð myndi spilla náttúrunni. 

Samkvæmt áætlun Reykjavíkurborgar gæti göngu- og hjólabrú út í Viðey …
Samkvæmt áætlun Reykjavíkurborgar gæti göngu- og hjólabrú út í Viðey kostað um 1,4 milljarða og verið byggð á árunum 2028-2030. Myndi brúin tengjast austurhluta eyjarinnar, sem hér er hægra megin og niður. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert