Heyrðu enga skothvelli

Frá Rauðagerði í dag.
Frá Rauðagerði í dag. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Fólk sem býr í grennd við húsið þar sem maður var skotinn til bana í gærkvöldi heyrði enga skothvelli og varð ekki vart við að eitthvað væri að fyrr en lögregla birtist um miðnætti. mbl.is hefur rætt við íbúa á svæðinu sem sammælast um að engir skothvellir hafi heyrst frá húsinu.

Samkvæmt heimildum mbl.is tengist manndrápið uppgjöri og valdabaráttu í undirheimunum. 

Eins og greint var frá í morgun var erlendur karlmaður á fertugsaldri skotinn til bana utan við heimili sitt í Rauðagerði í Reykjavík skömmu fyrir miðnætti. Annar karlmaður, sömuleiðis af erlendu bergi brotinn, er í haldi lögreglu í tengslum við málið.

Talið er að maðurinn hafi verið skotinn nokkrum sinnum, en hann var fluttur á Landspítala þar sem hann var úrskurðaður látinn. 

Húsið selt um áramótin

Húsið sem um ræðir var selt til einstaklinga frá Austur-Evrópu undir lok síðasta árs. Húsið hefur verið brotið upp í nokkur rými en þar eru nú þrjár íbúðir. Tvær á efri hæðinni og ein á neðri. Í bílskúrnum hefur svo verið komið fyrir aðstöðu, m.a. fyrir lyftingatæki. 

Að sögn fólksins sem staðsett var nærri húsinu þegar manndrápið á að hafa átt sér stað var lítið sem benti til þess að nokkuð amaði að. Það hafi ekki verið fyrr en lögreglan birtist um miðnætti sem ljóst var að eitthvað alvarlegt hafði átt sér stað. Komst einn nágranninn svo að orði að hljóðdeyfir hlyti að hafa verið notaður við verknaðinn.

Stöðugur straumur fólks

Enginn þeirra sem mbl.is ræddi við kveðst þekkja fólkið sem skráð er til heimilis í húsinu. Þá hafi það virkað friðsælt en stöðugur straumur fólks til og frá húsinu hafi vakið grunsemdir. 

Miklar mannaferðir hafi verið við húsið og fjöldi fólks verið þar snemma á morgnana og langt fram eftir kvöldi. Engan hafi þó grunað hvað var í vændum. Íbúarnir segjast „slegnir“ og finnst málið hið óþægilegasta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert