Geta bólusett mun hraðar en áður var talið

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er bjartsýn á að bólusetningar muni ganga …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er bjartsýn á að bólusetningar muni ganga vel. mbl.is/Árni Sæberg

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist mjög bjartsýn á að meirihluti landsmanna verði bólusettur fyrir mitt ár. Þar sem Íslendingar fái fleiri skammta af bóluefni Pfizer en áður var gert ráð fyrir verður hægt að hraða bólusetningu hérlendis með bóluefni Pfizer mikið, að sögn Katrínar.

Þetta kom fram í „Beinni línu“ Katrínar á Facebook þar sem hún svaraði spurningum fólks um ýmislegt, t.a.m. bóluefni. 

Fyrir helgi bárust fregnir af því að Íslendingar fái nú fleiri skammta frá lyfjaframleiðandanum Pfizer umfram þá skammta sem þegar höfðu verið tryggðir fyrir þjóðina. 

„Það munum við fá í sama hlutfalli og Norðmenn og Svíar eru að fá. Það mun hraða bólusetningu mjög með þessu efni hér á landi þannig að við getum gert okkur vonir um að hún gangi hraðar en við höfum áður séð,“ sagði Katrín.

Frá bólusetningu framlínustarfsfólks í Laugardalshöll.
Frá bólusetningu framlínustarfsfólks í Laugardalshöll. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mjög bjartsýn

Áður hafði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagt að þorri þjóðarinnar yrði bólusettur fyrir júnílok. Það rímar því við orð Katrínar um að meirihluti landsmanna verði bólusettur fyrir mitt ár. 

„Hvað varðar bólusetningarmálin heilt yfir þá erum við að sjá framleiðslugetuna aukast mjög hratt hjá þessum aðilum sem eru að framleiða bóluefni þannig að ég er mjög bjartsýn á að þetta fari að ganga hraðar og við munum sjá meirihluta landsmanna bólusetta fyrir mitt ár,“ sagði Katrín í beinu línunni. 

Eins og fram kom í fréttum fyrir helgi er útlit fyrir að Íslend­ing­ar fái um 57 þúsund fleiri skammta af bólu­efni frá Pfizer á öðrum ára­fjórðungi held­ur en áður hafði verið gert ráð fyr­ir. Það næg­ir til að bólu­setja nærri 28.500 manns þar sem hver og einn þarf tvo skammta af bóluefni. 

70.000 skammtar í mars

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að bóluefnaframleiðendur væru að auka framleiðslu sína og Íslendingar gætu verið vongóðir á að þeir fái bóluefni hraðar en áður var talið.

„Við erum hins vegar einungis enn þá með dreifingaráætlun út mars. Samkvæmt þeim áætlunum sem fyrir liggja munum við fá rúmlega 70.000 skammta í mars en inni í þeirri tölu er ekki bóluefni AstraZeneca svo það er ýmislegt óljóst í þessu en ég held að við getum verið vongóð um það að við getum farið að fá meira af bóluefnum,“ sagði Þórólfur sem vonast til þess að mögulegt verði að bólusetja flesta í sumar þó erfitt sé að spá fyrir um það.

Bólu­setn­ing­ar­da­ga­tal vænt­an­legt

Sótt­varna­lækn­ir vinn­ur að gerð bólu­setn­ing­ar­da­ga­tals á grund­velli fyr­ir­liggj­andi upp­lýs­inga um af­hend­ingu bólu­efna á næstu mánuðum. Þar verða birt­ar upp­lýs­ing­ar um for­gangs­hópa og hvenær ein­stak­ling­ar í hverj­um hópi geta vænst þess að fá boð um bólu­setn­ingu. Þess­um upp­lýs­ing­um er fyrst og fremst ætlað að veita fólki gróf­ar upp­lýs­ing­ar um fram­vindu bólu­setn­inga gegn Covid-19 hér á landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert