Hildur Guðnadóttir fær enn eina viðurkenninguna

Hildur Guðnadóttir við komuna á BAFTA verðlaunaafhendinguna í London.
Hildur Guðnadóttir við komuna á BAFTA verðlaunaafhendinguna í London. AFP

Tónskáldið og sellóleikarinn Hildur Guðnadóttir hefur verið valin háskólakona ársins 2020. Hildur hefur sópað að sér stærstu verðlaunum sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðarins síðastliðið eitt og hálft ár.

Þetta er í fjórða sinn sem Félag háskólakvenna, sem stofnað var árið 1928, stendur fyrir vali á háskólakonu ársins. Við valið er horft til þess að framlag háskólakonu ársins til samfélagsins þyki skara fram úr, að hún sé brautryðjandi á sínu fagsviði og að hún sé góð fyrirmynd fyrir aðrar háskólakonur.

„Fjölmargar háskólakonur voru á forvalslista og er það samdóma álit stjórnar Félags háskólakvenna að Hildur Guðnadóttir uppfylli vel öll þau skilyrði sem sett eru fyrir valinu og þykir hún hafa sýnt í verki hverju það getur skilað að hafa góða menntun í farteskinu. Tilgangur þess að velja háskólakonu ársins er að vekja athygli á fjölbreyttum starfsvettvangi háskólakvenna, beina kastljósinu að störfum þeirra og undirstrika framlag þeirra til samfélagsins. Auk þess sem félagið vill fagna framgangi þeirra, áræði og sérstökum árangri,“ segir í tilkynningu frá Félagi háskólakvenna.

Hefur náð stórkostlegum árangri

Hildur er með BA-gráðu frá Listaháskóla Íslands og framhaldsnám frá Universität der Künste í Berlín. Hún hefur náð framúrskarandi árangri á sínu sviði og hlotið fjölmargar viðurkenningar og verðlaun fyrir tónverk sín.

„Hún hefur samið fjöldann allan af verkum fyrir kvikmyndir, sjónvarpsþætti, leikhús og margvísleg önnur listform. Hún hefur einnig gefið út hljómplötur með eigin verkum. Meðal fjölmargra viðurkenninga sem Hildur hefur hlotið eru Óskarsverðlaun, Golden Globe-verðlaun, Grammy-verðlaun,  Emmy-verðlaun og BAFTA-verðlaun. Þá hlaut hún tilnefningar til tvennra Grammy-verðlauna fyrir tónlistina í kvikmyndinni Jóker,“ segir í fyrrnefndri tilkynningu. 

„Það má með sanni segja að Hildur sé vel að þessari viðurkenningu komin. Hún hefur náð stórkostlegum árangri á sínu sviði og fáir Íslendingar sem hafa náð viðlíka árangri. Það er okkur í stjórn Félags háskólakvenna því mikill heiður að veita Hildi þessa viðurkenningu,“ er haft eftir Hönnu Láru Helgadóttir, formanni Félags háskólakvenna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert