„Nýr veruleiki“ ef rétt reynist

Árásin átti sér stað við Rauðagerði í Reykjavík um helgina.
Árásin átti sér stað við Rauðagerði í Reykjavík um helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reynist skotárásin í Rauðagerði tengjast átökum í undirheimum líkt og heimildir mbl.is herma er um að ræða stigbreytingu á íslenskum veruleika og til marks um alvarlega þróun. Þetta er mat Karls Steinars Valssonar, yfirlögregluþjóns á alþjóðasviði ríkislögreglustjóra.

Karl Steinar Valsson.
Karl Steinar Valsson. Ljósmynd/Lögreglan

„Ef það verður niðurstaða rannsóknarinnar þá er það svolítið nýr veruleiki ef hægt er að rekja málið með þeim hætti að þetta tengist skipulagðri brotastarfsemi,“ segir Karl Steinar.

Eins og fram hefur komið var albönskum manni ráðinn bani með skotvopni við heimili sitt. Átökin eru sögð vera um yf­ir­ráð yfir fíkni­efna­markaði í und­ir­heim­um um þess­ar mund­ir, vegna valdatóms sem myndaðist þegar stór­tæk­ur ís­lensk­ur fíkni­efna­sali tók að draga sig í hlé fyr­ir skömmu. Fullyrt er á Vísi að maðurinn hafi meðal annars fengið skotsár í höfuðið. Erlendur maður hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til föstudagsins 19. febrúar. 

Sé um að ræða skotárás tengda uppgjöri í fíkniefnaheiminum er …
Sé um að ræða skotárás tengda uppgjöri í fíkniefnaheiminum er um að ræða breyttan veruleika hér á landi. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra frá árinu 2019 kemur fram að hér á landi hafi skipulögð glæpastarfsemi að mestu tengst manneskjum frá Rúmeníu, Litháen, Póllandi og Albaníu. „Fyrirsjáanleg þróun, að óbreyttu, er á þann veg að umfang skipulagðrar glæpastarfsemi aukist á Íslandi. Aukin samkeppni á milli skipulagðra brotahópa kann að leiða til gengjamyndunar og grófra ofbeldisverka gagnvart einstaklingum sem þeim tengjast,“ segir í skýrslunni. 

Búast má við ofbeldisverkum 

Að sögn Karls Steinars hefur Ísland nokkra sérstöðu þegar kemur að skipulagðri glæpastarfsemi. Ólíkt því sem gerist erlendis virðist vera nokkur blöndun milli hópanna sem starfa saman með Íslendingum í skipulagðri starfsemi. „Innbyrðis inni í hópum og milli hópa má búast við ofbeldisverkum. Það hefur verið aukning á því og við þurfum ekki annað en að horfa til annarra Norðurlanda til að sjá þróunina í þeim efnum,“ segir Karl Steinar.

Að sögn hans er algengast að skipulagðir glæpahópar hérlendis hafi tengsl við Spán, Holland og Danmörku. Upp á síðkastið hefur þó einnig borið á tengslum við upprunalöndin á borð við Albaníu og Rúmeníu. „Hér á landi eru því eins konar sellur sem er að einhverju leyti stýrt úr öðrum löndum,“ segir Karl Steinar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert