Straumurinn liggur norður á skíði

Vetrarlegt er á Akureyri og ljóst að margir ætla að …
Vetrarlegt er á Akureyri og ljóst að margir ætla að skreppa norður í vetrarfríinu. mbl.is/Þorgeir

Allir skíðamiðar í Hlíðarfjall á tímabilinu 18. til 28. febrúar eru að seljast upp en miðasala hófst á hádegi. Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli, á ekki von á öðru en að seljist fljótt upp en mikið álag hefur verið á tölvukerfi svæðisins. 

Allar helgar hafa verið uppseldar síðan skíðasvæðin fengu heimild til að opna vegna Covid-19. Brynjar segir að aðeins megi selja 25% af þeim miðum sem venjulega er hægt að selja og færið hefur verið mjög gott í fjallinu undanfarið og tíðin góð. Eins og staðan er núna er útlit fyrir gott veður í Hlíðarfjalli um helgina en næstu daga er spáð hlýindum. 

Spurður út í nýju skíðalyftuna segir Brynjar að hún sé í lokaúttekt hjá framleiðanda og ekki sé vitað hvenær bærinn fær hana afhenta. Hún er á lokametrunum en ekki hefur verið tilkynnt hvenær hún verður afhent nákvæmlega.

Uppselt hefur verið á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli undanfarnar helgar.
Uppselt hefur verið á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli undanfarnar helgar. mbl.is/Þorgeir

María Helena Tryggvadóttir, verkefnastjóri ferðamála á Akureyri, segir að mikið sé bókað hjá gististöðum og veitingastöðum í bænum í vikunni og næstu viku þegar vetrarfrí eru í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu. 

Vetrarleyfi eru í grunnskólum Kópavogs á fimmtudag og föstudag, 18. og 19., í Reykjavík á mánudag og þriðjudag, 22. og 23., og í þeirri sömu viku eru vetrarleyfi í Hafnarfirði og Garðabæ. 

María segir að það stefni í líflega daga fyrir norðan og vel bókað á hótelum, gistiheimilum og orlofsíbúðum. Sömuleiðis á veitingastöðum. „Við hvetjum fólk til þess að skipuleggja sig vel því við erum með samkomutakmarkanir þannig að það þarf að skipuleggja sig vel ef fólk ætlar á veitingastaði. Það þýðir ekki að ætla sér bara að mæta á staðinn,“ segir María. 

Hún hvetur fólk til þess að gera ráðstafanir áður en lagt er af stað í fríið, bóka miða í Hlíðarfjall, á veitingastöðum og aðra afþreyingu sem í boði er, svo sem leiksýningar. Það er alltaf hægt að finna lausnir, svo sem að panta mat til að taka með heim, aðallega að skipuleggja sig þannig að allir eigi ánægjulegt frí, segir María.

María segir að á einhverjum stöðum sé ekki hægt að bóka fyrir fram, svo sem á söfnum og í sundlaugum. En mörg söfn verða opin þessa daga og svo eru fleiri en ein sundlaug í boði því sundlaugin á Þelamörk og á Hrafnagili eru opnar auk sundlaugarinnar á Akureyri. Jafnvel er hægt að skreppa aðeins lengra, svo sem í sjóböðin á Húsavík og jarðböðin við Mývatn.

Jafnframt er hægt að fara á gönguskíði í Kjarnaskógi og að Hömrum auk gönguskíðabrautar í Hlíðarfjalli. Þessi svæði eru einnig tilvalin til gönguferða og annarrar útivistar. María mælir með því að fólk taki sleða með ef börn eru með í för og skelli sér í jólasveinabrekkuna, sleðabrekkuna í bænum. 

Mjög mikið er bókað á Hótel KEA þessa vetrarleyfisdaga og er mælt með því að fólk sem hefur áhuga á að bóka hótel geri það sem fyrst. Best sé að bóka á vef hótelsins. Svipaða sögu er að segja af veitingastaðnum Greifanum. Þar er nánast fullbókað næstu helgi og þar er mælt með því að fólk gangi frá borðapöntunum sem fyrst á netinu. Því mun færri mega vera inni á veitingastöðum vegna Covid-19 en venjulega. 

mbl.is