„Vonin um kraftaverk lifir“

John Snorri ásamt feðgunum Muhammad Ali Sa­dp­ara og Sajid Ali …
John Snorri ásamt feðgunum Muhammad Ali Sa­dp­ara og Sajid Ali í 2. búðum K2. Ljósmynd/Facebook

Pakistönsk yfirvöld hafa ákveðið að halda grunnbúðum K2 áfram opnum og mun leit að þeim John Snorra Sigurjónssyni, Mohammad Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr halda áfram eftir því sem veður og aðstæður leyfa, en leitin hingað til hefur engan árangur borið.

Í tilkynningu frá fjölskyldu John Snorra kemur fram að hún hafi ákveðið að veita ekki viðtöl að svo stöddu heldur setja alla sína orku í að takast á við þá þungbæru stöðu sem uppi er. Haft er eftir Línu Móeyju Bjarnadóttur, eiginkonu Johns, að hún ítreki þakkir til allra sem hafi tekið þátt í leitinni, en henni hefur verið stýrt af pakistönskum yfirvöldum, en íslensk og sílesk yfirvöld hafa komið þar að máli einnig.

„Þeir félagar eru enn týndir en vonin um kraftaverk lifir. Hjörtu okkar, ástvina þeirra, slá með þeim,“ er haft eftir Línu í tilkynningunni. „Það er búið að vera ótrúlegt að finna þann kraft sem hefur verið í leitinni, bæði af hálfu íslenskra, pakistanskra og síleskra yfirvalda. Ekki síður hefur sú umhyggja og sá stuðningur sem fjöldi fólks hefur sýnt okkur styrkt fjölskylduna á þessum erfiðu tímum. Hjartans þakkir til ykkar allra.“

Í gær var greint frá því að aðstoðarmenn Johns, Ali Sadpara og Mohr væru á leið heim, en að blaðamannafundur væri haldinn í dag, sem tengdist sérstaklega Ali Sadpara, en hann er þekktasti fjallgöngumaður Pakistans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert