Hægt að yfirfæra árangur Karolinska á Ísland

Björn Zoëga.
Björn Zoëga. mbl.is/Ómar Óskarsson

Það hlýtur að vera hægt að minnka skriffinnsku með því að fækka skrifstofufólki og færa völdin og boðskiptin nær gólfinu á sjúkrahúsum hérlendis líkt og gert hefur verið með góðum árangri á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi.

Þetta sagði Björn Zöega, forstjóri Karolinska sjúkrahússins þar sem hann hefur starfað í tæp tvö ár, á fundi Sænsk-íslenska viðskiptaráðsins sem var streymt í morgun.

Fundurinn var haldinn í ljósi þess að árangur stjórnenda á Karonliska sjúkrahúsinu hefur vakið mikla athygli þar í landi. Björn fjallaði í erindi sínu um viðsnúninginn sem hefur orðið í rekstri spítalans og þá hvata sem er unnið með til að auka framleiðni í rekstri sjúkrahúsa. Undir hans stjórn hefur náðst að skila rekstrarafgangi hjá Karolinska, samhliða því að veita aukna þjónustu með færra starfsfólki ásamt því að halda í starfsánægju.

Í skýrslu sem heilbrigðisráðuneytið kynnti undir lok síðasta árs kom fram að framleiðni starfsfólks á íslenskum sjúkrahúsum hafi minnkað undanfarin fimm ár, en starfsmannakostnaður aukist á sama tíma.

Hjólreiðamaður fyrir utan Karolinska sjúkrahúsið í janúar.
Hjólreiðamaður fyrir utan Karolinska sjúkrahúsið í janúar. AFP

Skrifstofufólki fækkað um 550 

Björn sagði það hafa verið krefjandi að koma til starfa á Karolinska sjúkrahúsinu fyrir tæpum tveimur árum. Sjúkrahúsið hafi verið í töluverðum vandræðum. Sterkur hópur stjórnenda hafi unnið við að breyta því sem þurfti að breyta og kerfið hafi hjálpað þeim við það.

Árið 2017 nam rekstartap spítalans 290 milljónum sænskra króna, árið eftir var hallinn 822 milljónir, árið 2019 nam rekstartapið 1.867 milljónum sænskra króna en í fyrra var spítalinn rekinn með 73 milljóna rekstarhagnaði. Spítalinn hafði fengið fyrirmæli um að skila 54 milljónum sænskra króna í hagnað. Það tókst og gott betur en það, sagði Björn, sem gegndi starfi forstjóra Landspítalans um tíma.  

Starfsmaður Karolinska sjúkrahússins.
Starfsmaður Karolinska sjúkrahússins. AFP

Þegar hann fór yfir til hvaða aðgerða gripið var til að snúa við rekstrinum sagði hann að skrifstofufólki hefði verið fækkað um í kringum 550, yfirmönnum fækkað um í kringum 22% og valdið fært nær gólfinu. Boðskipti voru stytt og upplýsingaflæðið bætt, stýringin var gerð skýrari ásamt skipulaginu, auk þess sem fundum var fækkað og þeir styttir.

Kostnaður var jafnframt minnkaður í lok árs 2019 um 5% vegna þess að spítalinn framleiddi meira. Hann gerði meira og fékk fyrir vikið auknar tekjur.

Breyttar áherslur vegna biðlista

Hann benti á breytingu sem hefur verið gerð á Karolinska til að vinna bug á biðlistum. Ef sjúklingur á sjúkrahúsinu þarf að bíða eftir þjónustu þar í meira en 90 daga getur hann leitað annað eftir þjónustunni og þarf Karolinska að greiða allan kostnað hans þar.

Heilbrigðisstarfsfólk Landspítalans að störfum.
Heilbrigðisstarfsfólk Landspítalans að störfum. Ljósmynd/Landspítalinn

Reyndi að innleiða DRG á Íslandi

Hann greindi frá því hvernig spítalinn er fjármagnaður. 54% af fjármögnuninni er föst fjármögnun, 6% eru gæðastuðlar þar sem sýna þarf fram á ákveðinn árangur og 40% fjármagnsins er breytilegt, þar sem framleiðslumælikerfið DRG kemur við sögu. Samkvæmt því fær spítalinn borgað fyrir það sem hann gerir. Kerfið er við lýði í flestum löndum en hefur ekki náð fótfestu á Íslandi. Markmið kerfisins er að auka gegnsæi og framleiðni.

Björn átti þátt í því að reyna að koma kerfinu á hér á landi fyrir árið 2008 og síðar eftir að hann hætti á Landspítalanum og gerðist stjórnarformaður Sjúkratrygginga Íslands. Hann beitti sér fyrir því að tilraunasamningur yrði gerður við Landspítalann og farið af stað með svokallaða skuggakeyrslu 2014 til 2015. Áður en honum tókst að ljúka dæminu hætti hann og flutti til Svíþjóðar. Hann sagði ákveðna tregðu og þekkingarleysi hafi verið hjá Landspítalanum í garð kerfisins. Spítalinn hafi verið hræddur við að taka skrefið og fara í þessa átt en kerfið virkar þannig að spítalinn fær minni peninga ef hann stendur sig ekki í því sem hann á að gera. Þessu fylgi ákveðin áhætta í rekstrinum.

Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut. mbl.is/Ómar Óskarsson

Starfsmönnum fjölgað á Landspítala

Spurður hvort hægt sé að yfirfæra góðan árangur Karolinska spítalans yfir á Ísland eða hvort hann njóti stærðarhagkvæmni í Svíþjóð sagði Björn að hann njóti hennar að einhverju leyti. Miðað við þær tölur sem hann hafi séð frá Íslandi hljóti samt að vera hægt að gera eitthvað af því sem þau hafa gert í Svíþjóð og nefndi minni skriffinnsku og fækkun skrifstofufólks.

Hann benti á að 5.200 starfsmenn hafi verið á Landspítalanum þegar hann byrjaði þar en þegar hann yfirgaf hann hafi þeim fækkað umtalsvert og verið orðnir 4.200 þrátt fyrir að hjúkrunarfræðingar og læknar hafi verið jafnmargir og áður. Núna hafi honum verið sagt að starfsmenn Landspítalans séu nálægt sex þúsund.

Starfsfólk Landspítalans.
Starfsfólk Landspítalans. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson.

Var ósammála stjórnvöldum 

Björn sagði að ein ástæða fyrir því að hann hætti hjá Landspítalanum í lok árs 2013 hafi verið að hann var með tillögu um hvernig ætti að nota í ákveðna uppbyggingu það fjármagn sem var væntanlegt frá stjórnvöldum. Af hálfu stjórnvalda voru aftur á móti engar kröfur gerðar á spítalann um hvað yrði gert við peningana. Þessu var hann ósammála. „Ef maður ætlar að fá meiri peninga inn í kerfið þarf maður að vita hvað maður fær fyrir peningana,“ sagði hann.

Spurður út í mestu hindrunina sem hann hafi orðið fyrir á Karolinska sjúkrahúsinu sagði hann ákveðinn kúltúr hafa verið innan spítalans. Menn séu vanir því að ef farið er fram úr fjárlögum komi „mamma“ hlaupandi með meiri pening. „Það hefur ekki alltaf fylgt með ábyrgð ef maður gerir eitthvað vitlaust og stendur ekki við hlutina,“ sagði Björn og bætti við að það sé áskorun að fá fólk til að þora að gera hlutina. Ef það gerði það ekki hefði það afleiðingar fyrir það og starfsemina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert