Telur tímabært að ræða stærri skref í tilslökunum

Heilbrigðisráðherra gerir ráð fyrir að fá tillögur um tilslakanir innanlands frá sóttvarnalækni á næstu dögum og þá er útlit fyrir að þær tækju gildi í næstu viku. Ferðamálaráðherra vill sjá stærri skref í átt að tilslökunum í ljósi góðrar stöðu í faraldrinum hér innanlands. Hún segir að mörg fyrirtæki séu að verða „algjörlega súrefnislaus“ vegna faraldursins.

Í dag samþykkti Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra til­lög­ur Þórólfs Guðna­son­ar sótt­varna­lækn­is um aðgerðir á landa­mær­un­um. Þær fel­ast m.a. í því að fólk þarf að fram­vísa nei­kvæðu PCR-prófi við kom­una til lands­ins, auk þess að fara í tvö­falda skimun með fimm daga sótt­kví á milli. 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra, ræddi við blaðamenn að loknum ríkisstjórnarfundi í dag. Hún sagði að mjög fáir erlendir ferðamenn komi hingað til lands eins og staðan er í dag. Breytingarnar hafi aðallega áhrif á Íslendinga sem koma til landsins og fólk sem ferðast hingað til lands vegna vinnu. Þó hafi allar hindranir einhver áhrif.

„Það er almennt þegar maður tekur fleiri skref í átt að hindrunum því það þýðir að verkefnið verður þá stærra, að afnema það að nýju. Það verkefni verður stórt,“ sagði Þórdís.

Vill að almenningur finni að hann hafi staðið sig vel

Engin ný kórónuveirusmit hafa greinst hér á landi síðastliðna fjóra daga. Þrátt fyrir það er 20 manna samkomubann í gildi sem og aðrar takmarkanir á ýmsa starfsemi, t.d. á starfsemi líkamsræktarstöðva. Spurð um hvort taka mætti stærri skref í tilslökunum sagði Þórdís: 

„Ég er þeirrar skoðunar, já.“

Hún telur tímabært að ræða tilslakanir í þessum efnum og að rýmkun á 20 manna samkomutakmörkunum myndi breyta miklu, sem og rýmkun á opnunartíma veitingastaða. Með því að opna betur á ákveðna atvinnustarfsemi vill Þórdís „gera fólki kleift að afla sér tekna og að almenningur finni að hann er búinn að standa sig vel og njóti góðs af því að hér hefur ekki verið samfélagssmit í 25 daga.“

Sér ekki fram á að 900.000 manns komi til landsins

Þórdís segir að mörg fyrirtæki standi illa vegna faraldursins.

„Ég bara bind vonir við það að við séum í alvörunni mjög langt komin með að taka á móti bóluefni þannig að við förum að sjá til lands vegna þess að það eru mörg fyrirtæki sem eru algjörlega að verða súrefnislaus.“

Þá bendir Þórdís á að fyrirliggjandi forsendur í fjárlögum geri ráð fyrir því að 900.000 ferðamenn komi hingað til lands á árinu. „Ég sé ekki alveg hvernig við ætlum að ná því,“ segir Þórdís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert