Úrslit forvalsins „vonbrigði“

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, segir úrslit forvals flokksins í Norðausturkjördæmi mikil vonbrigði. Hún hafði boðið sig fram í fyrsta sæti á lista flokksins en laut í lægra haldi fyrir Óla Halldórssyni, varaþingmanni flokksins.

Hún segist ekki hafa ákveðið hvort hún muni þiggja annað sæti á lista flokksins og segist munu taka sér tíma til þess að ákveða það.

„Þetta eru auðvitað vonbrigði, ég neita því ekkert,“ segir Bjarkey í samtali við mbl.is.

„Nú mun ég heyra í mínu baklandi og taka mér þann tíma sem ég þarf til þess að komast að niðurstöðu,“ segir hún spurð að því hvort hún muni þiggja annað sætið.

Varaþingmaður vann þingflokksformanninn

Rafrænt forval Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi fór fram dagana 13.-15. febrúar og voru niðurstöðurnar á þá leið að Óli Halldórsson var hlutskarpastur, sem fyrr segir, Bjarkey varð í öðru sæti, Jódís Skúladóttir í því þriðja, Kári Gautason varð fjórði og í fimmta sæti varð Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir.

Tólf voru í framboði en niðurstaða forvalsins fyrir efstu fimm sætin er bindandi, að því gefnu að kynjahlutfall sé jafnt, sem það er, og að frambjóðendur velji að taka þeim sætum sem þeim bjóðast.

Óli Halldórsson hefur einungis tekið sæti á Alþingi sem varaþingmaður flokksins en hann hefur skipað oddvitasæti flokksins í Norðurþingi. Því er skiljanlegt að Bjarkey segi niðurstöðu forvalsins vonbrigði þar sem hún hefur setið á Alþingi fyrir Vinstri græna óslitið síðan árið 2013.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hefur löngum verið einn vinsælasti …
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hefur löngum verið einn vinsælasti þingmaður Norðausturkjördæmis. Frá því að VG var stofnuð árið 1999 hefur flokkurinn einu sinni sigrað í kjördæminu. Steingrímur tilkynnti í janúar að hann hygðist ekki gefa kost á sér í þingkosningunum í haust. Hann tók sæti á Alþingi árið 1983. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Spurð hvort hún telji niðurstöðuna til marks um klofning innan flokksins svarar Bjarkey því neitandi. Frekar sé þetta merki um heilbrigða samkeppni innan flokksins.

„Í fyrsta lagi er ekkert öruggt í pólitík,“ segir Bjarkey spurð um hvort annað sæti á lista VG í Norðausturkjördæmi sé öruggt þingsæti.

„Við höfum haft tvo þingmenn í þessu kjördæmi síðan árið 1999 og ég hef enga ástæðu til þess að halda að breyting verði þar á.“

mbl.is