Greiddu 1,7 milljarða kostnað fyrir ríkið

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri. Ljósmynd/Auðunn Níelsson

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, var ómyrk í máli á fundi bæjarstjórnar í gær, þegar hún fjallaði um samskipti bæjarins við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) í kjölfar þess að Akureyrarbær sagði upp rekstrarsamningi um hjúkrunarheimili bæjarins á síðasta ári. Akureyri.net greinir frá þessu í morgun.

Bæjarstjóri gagnrýndi vinnubrögð SÍ harðlega og sagði það hafa valdið sér miklum vonbrigðum þegar í ljós kom að forstjóri stofnunarinnar starfaði ekki af heilindum. Stofnunin hefði augljóslega ætlað sér að pína sveitarfélögin fjögur, sem höfðu sagt upp samningum, til að halda áfram rekstri hjúkrunarheimilanna, hvað sem tautaði og raulaði.

„Svo fór að Akureyrarbær réð vana samningamenn á lögfræðistofu til að gæta hagsmuna sveitarfélagsins gagnvart Sjúkratryggingum Íslands!“

Akureyri.net greindi frá því í gær að formaður bæjarráðs hafi upplýst um að Akureyrarbær hefði greitt 1,7 milljarða króna vegna reksturs hjúkrunarheimila bæjarins á árunum 2012 til 2020, vegna þess að framlög ríksins dugðu ekki. Ber ríkinu þó að greiða allan kostnað við reksturinn. 

mbl.is