Þurfa að endurtaka kandídatsárið

Ragnheiður Vernharðsdóttir er íslenskur sérnámslæknir í Noregi.
Ragnheiður Vernharðsdóttir er íslenskur sérnámslæknir í Noregi. Ljósmynd/Aðsend

Íslenskir sérnámslæknar sem stunda sérnám í Noregi sjá fram á að þurfa að endurtaka kandídatsárið sitt vegna breytinga á skipulagi læknisnáms þar í landi. Útlit er fyrir að sama staða komi upp fyrir íslenska sérnámslækna í Svíþjóð innan tíðar. Sérnámslæknir í Noregi kallar eftir aðgerðum frá stjórnvöldum og segir að staðan geti haft veruleg áhrif á íslenskt heilbrigðiskerfi.

Skipulagi náms í læknisfræði í Noregi var breytt árið 2019 þannig að læknanemar fá nú fullt lækningaleyfi eftir sex ára háskólanám. Sérnámið hefst svo á átján mánuðum af því sem sambærilegt er íslensku kandídatsári. Áður höfðu norskir læknanemar fengið læknaleyfi sitt eftir sex ára nám og átján mánaða „turnus“, sem var talið sambærilegt íslensku kandídatsári. Því komust læknanemar frá Íslandi beint inn í sérnámið, án þess að þurfa að endurtaka kandídatsárið eins þeir þurfa nú að gera.

„Þetta er að verða stórt vandamál fyrir alla lækna sem útskrifast á Íslandi og fara í sérnám erlendis,“ segir Ragnheiður Vernharðsdóttir, sérnámslæknir í augnlækningum í Noregi. Hún er ein af þeim sem sjá fram á að þurfa að endurtaka kandídatsárið og seinka því þannig að hefja sinn starfsferil sem augnlæknir.

Íslenska heilbrigðiskerfið getur ekki sinnt öllu sérnámi

Ragnheiður, sem hóf sérnám í augnlækningum í janúar á síðasta ári, vakti athygli á málinu á instagramsíðu íslenskra læknanema í gær. Hún fékk mikil viðbrögð við útskýringum sínum á því og hefur formaður Félags almennra lækna t.a.m. sagt málið í forgangi hjá félaginu.

Ragnheiður óskar þess að íslensk og norsk yfirvöld geti komist að samkomulagi um það að gera undantekningu á reglunni svo umræddir sérnámslæknar þurfi ekki að endurtaka sitt kandítatsár, sérstaklega í ljósi þess að bið getur verið eftir því að komast að í slíkt starfsnám í Noregi og því getur það seinkað útgáfu sérfræðileyfis verulega. Þá lækkar fólk einnig í launum við að fara af sérnámslæknalaunum yfir á kandídatslaun og eins og gefur að skilja væru launin mun hærri ef viðkomandi hefði fengið sitt sérfræðileyfi og hafið störf við sína sérgrein í stað þess að fara aftur á kandídatslaun.

„Það verður gera breytingu á uppbyggingu íslensks læknanáms á pari við það sem hinar Norðurlandaþjóðirnar eru að gera til þess að við getum haldið áfram að fara í sérnám til annarra landa í ljósi þess að íslenska heilbrigðiskerfið er ekki nógu stórt til þess að það geti séð um sérnám í öllum sérgreinum,“ segir Ragnheiður sem bendir á að leita þurfi út fyrir landsteinana fyrir nám í mörgum sérgreinum.

Fjölskylda Ragnheiðar á skíðum í Noregi.
Fjölskylda Ragnheiðar á skíðum í Noregi. Ljósmynd/Aðsend

Getur haft gríðarleg áhrif á íslenskt heilbrigðiskerfi

Hún hefur óskað eftir upplýsingum um málið frá embætti landlæknis og heilbrigðisráðherra. Einu svörin sem hún hefur fengið er að málið sé til skoðunar. Þá segir Ragnheiður að læknadeild Háskóla Íslands hafi sagst héðan í frá ætla að breyta skipulagi íslenska læknanámsins í takt við hið norska.

Þrátt fyrir að slík breyting taki gildi situr enn eftir hópur lækna sem hefur þegar lokið sínu kandídatsári en ekki sinni sérhæfingu og þarf að endurtaka kandídatsárið erlendis ef engu er breytt.

„Ef allir sem ljúka læknanámi á Íslandi sjá að það sé bara tímasóun að taka íslenskt kandídatsár og fara beint erlendis eftir grunnnám getur það haft gífurleg áhrif á íslenskt heilbrigðiskerfi. Þá er spurning hver ætti að manna þær stöður sem kandídatar og sérnámslæknar manna á heilbrigðisstofnunum úti um allt land á Íslandi í dag,“ segir Ragnheiður.

„Eftir að ég vakti athygli á þessu í gær opinberlega heyrði ég frá formanni Félags almennra lækna. Hún segir að þau hafi vitað af þessu síðan 2018 og hafi varað við þessu en það hafi enn ekki borið neinn árangur til þess að greiða veg íslenskra lækna á leiðinni út.“

„Þetta er að verða stórt vandamál fyrir alla lækna sem …
„Þetta er að verða stórt vandamál fyrir alla lækna sem útskrifast á Íslandi og fara í sérnám erlendis,“ segir Ragnheiður. Ljósmynd/Aðsend

Í millibilshópi

Ragnheiður leggur áherslu á að íslensk heilbrigðisyfirvöld þurfi að bregðast skjótt við og reyna að ná samkomulagi við norsk heilbrigðisyfirvöld í þessum efnum ef bjarga á íslenskum læknum frá því að þurfa að taka kandídatsárið upp á nýtt.

„Við sem erum útskrifuð og höfum lokið íslensku kandídatsári erum í einhverjum millibilshópi.“

Spurð hvort hún geti fengið sérnámið sitt metið til sérfræðileyfis hér á landi segir Ragnheiður það óvíst en bendir á að hún geti ekki fengið þjálfun í ákveðnum aðgerðum fyrr en hún er orðin sérfræðingur.

„Þannig að ég þarf að vinna í Noregi sem sérfræðingur í einhvern tíma áður en ég get farið að huga að því að koma heim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert