Göturnar koma vel undan vetri

Götur höfuðborgarsvæðisins virðast koma nokkuð vel undan vetri í ár. Eftir frost og svo í kjölfarið þíðu og leysingar hafa gjarnan myndast holur og skemmdir á vegum á þessum tíma árs en það virðist minna um það nú en oft áður.

Af hálfu Vegagerðarinnar hefur verið farið í lítilsháttar viðgerðir á vegum í Mosfellsbæ og svo á einhverjum álagspunktum til að mynda við hringtorg en annars er tilfinningin sú að minna hafi verið um viðgerðir í ár á höfuðborgarsvæðinu segir Kristinn Lind Guðmundsson, sérfræðingur hjá Vegagerðinni í samtali við mbl.is. „Ég myndi segja að ástandið væri bærilegt. Engar stórar uppákomur á borð við tjón á bílum eins og hefur komið upp þegar fólk hefur keyrt ofan í holur.“

Töluvert var dregið úr viðhaldi á vegakerfinu á höfuðborgarsvæðinu á árunum eftir hrun sem kom verulega niður á gatnakerfinu í kjölfarið. Árið 2018 skemmdust til að mynda tugir bíla á sama vegkafla í Mosfellsbæ sem var á forsjá Vegagerðarinnar. Töluverðum fjármunum verið varið í endurbætur á vegakerfinu á undanförnum árum sem hefur eflaust hjálpað til en einnig er mögulegt að þessi mildi vetur hér á höfuðborgarsvæðinu hafi líka eitthvað að segja um það að skemmdir virðast minni nú.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert