Andlát: Árni Magnús Emilsson

Árni Magnús Emilsson.
Árni Magnús Emilsson.

Árni Magnús Emilsson, fyrrverandi sveitarstjóri í Grundarfirði og útibússtjóri, lést á Landspítalanum aðfaranótt 17. febrúar, 77 ára að aldri.

Árni fæddist í Vestmannaeyjum 14. apríl 1943, sonur hjónanna Emils Jóhanns Magnússonar og Ágústu Kristínar Árnadóttur, en ólst upp á Þórshöfn frá þriggja ára aldri og til 1952. Þá flutti fjölskyldan í Grundarfjörð þar sem Árni var búsettur til 1986 er hann flutti í Garðabæ þar sem hann hefur búið síðan.

Árni kenndi við Barnaskóla Grundarfjarðar frá 1963, sinnti verslunarstörfum hjá föður sínum í Verslunarfélaginu Grund í Grundarfirði um skeið, var sveitarstjóri Grundarfjarðar 1970-79, var framkvæmdastjóri fiskvinnslufyrirtækisins Sæfangs í Grundarfirði 1979-82, útibússtjóri Búnaðarbankans í Grundarfirði 1982-86, útibússtjóri Búnaðarbankans í Garðabæ 1986-2002, útibússtjóri aðalbanka Kaupþings í Austurstræti 2002-2004 og við Landsbankann 2004-2010 er hann lét af störfum.

Árni æfði og keppti í knattspyrnu, körfubolta og öðrum íþróttagreinum á vegum UMFG. Hann var mikill áhugamaður um skák og var nokkur ár gjaldkeri Skáksambands Íslands. Hann beitti sér fyrir ýmsum skákmótum, stóð fyrir frægu skákmóti í Grundarfirði, í tilefni af 200 ára verslunarsögu Grundarfjarðar, og er upphafsmaður að Friðriksmótinu sem haldið hefur verið á vegum Landsbankans frá 70 ára afmæli Friðriks. Hann var einn af stofnendum Félags ungra sjálfstæðismanna á Vesturlandi og fyrsti formaður þess, sat í fulltrúaráði og kjördæmisráði flokksins á Vesturlandi, starfaði í sjálfstæðisfélagi í Garðabæ og sótti landsfundi um áratuga skeið. Hann sat í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og var formaður Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi um skeið.

Árni var, ásamt Sturlu Böðvarssyni, ritstjóri hins fjögurra binda rits, Ísland – 2010 atvinnuhættir og menning.

Eftirlifandi eiginkona Árna er Þórunn Björg Sigurðardóttir. Börn Árna og Þórunnar eru Orri, Arna og Ágústa Rós. Barnabörnin eru fjögur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »