Bólusetningu ljúki í júní

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bólusetningu gegn kórónuveirunni lýkur í júní, gangi áætlanir stjórnvalda eftir. Þetta varð ljóst eftir að heilbrigðisráðuneytið birti bólusetningardagatal fyrr í dag.

Hingað til hafa landsmenn þurft að láta sér óljósar áætlanir að góðu verða, en talað hefur verið um að „þorri“, „meirihluti“ eða jafnvel „flestir“ landsmenn verði bólusettir fyrir júnílok. Nú er hins vegar áætlunin skýrari: allir landsmenn, sem á annað borð kjósa svo, verða bólusettir fyrir júnílok. Það gera um 280.000 manns, enda bóluefnið aðeins ætlað fullorðnum.

Eins og áður hefur verið greint frá er gert ráð fyrir skömmtum fyrir um 190.000 manns fyrir júnílok frá þeim þremur framleiðendum sem þegar hafa fengið markaðsleyfi í Evrópu: Pfizer, Moderna og AstraZeneca.

Háð markaðsleyfi og nýjum samningum

Í samtali við mbl.is segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að þessir skammtar séu það sem er fast í hendi. Forsendur bólusetningardagatalsins miði hins vegar einnig við skammta frá öðrum framleiðendum, sem enn eiga eftir að fá markaðsleyfi í Evrópu. Það eru fyrirtækin Curavac og Jans­sen, sem þegar hefur verið samið við, og fyrirtækið Novavax, en samingaviðræður Evrópusambandsins við það síðastnefnda eru á lokametrunum.

Eins og gefur að skilja er því nokkur óvissa tengd bólusetningaráætluninni, en hún verður uppfærð eftir því sem nánari upplýsingar berast.

Áætlanir íslenskra stjórnvalda eru sambærilegar áætlunum frá Danmörku, en þar í landi er gert ráð fyrir að ljúka bólusetningum í viku 25 (sem lýkur 27. júní). Sú áætlun er einnig háð því að veiting markaðsleyfa og samningar um bóluefni Novavax gangi eftir.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert