Fyrri skammtur virkar vel til skamms tíma

Magnús Gottfreðsson sérfræðingur í smitsjúkdómalækningum á Landspítala og prófessor við …
Magnús Gottfreðsson sérfræðingur í smitsjúkdómalækningum á Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Bóluefni Pfizer og BioNTech gegn kórónuveirunni veitir öfluga vernd eftir aðeins einn skammt og lítill ávinningur er til skamms tíma af síðari skammtinum. Þetta sýna niðurstöður tveggja rannsókna frá Ísrael og Kanada. Rannsóknirnar sýna að bóluefnið veitir á bilinu 85-92% vernd nokkrum vikum eftir að fólk fær fyrri skammt þess, en til samanburðar er virknin um 95% eftir að síðari skammtur hefur verið gefinn.

Lyfjafyrirtækin hafa hingað til mælt með því að tveir skammtar séu gefnir með um þriggja vikna millibili, en þó hefur ákveðinn sveigjanleiki verið gefinn þannig að allt að sex vikur megi líða milli skammtanna.

Bretar veðjuðu á réttan hest

Niðurstöður rannsóknanna hafa hins vegar gefið þeim byr undir báða vængi sem vilja fresta síðari skammtinum til þess að gefa megi sem flestum fyrri skammt efnisins.

Þeirri aðferð hefur til að mynda verið beitt í Bretlandi. Hvergi í Evrópu hafa fleiri skammtar af bóluefni verið gefnir miðað við íbúafjölda, eða um 25 skammtar á hverja 100 íbúa. Í stað þess að taka frá skammta fyrir síðari bólusetningu, hafa Bretar hins vegar lagt áherslu á að sem flestir fái fyrri skammt bóluefnisins og hafa gefið út að allt að tólf vikur geti liðið þar til síðari skammtur er gefinn. Þannig hafa aðeins 0,9% Breta verið fullbólusett – þ.e. fengið tvo skammta af efninu – samanborið við 2,6% Íslendinga.

Önnur rannsóknin var framkvæmd í Ísrael, þar sem Pfizer hefur …
Önnur rannsóknin var framkvæmd í Ísrael, þar sem Pfizer hefur staðið fyrir stóru tilraunaverkefni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki endilega fýsilegt á Íslandi

Magnús Gottfreðsson, prófessor og yfirlæknir á Landspítala, segir að óvissa um hve lengi vörn bóluefnisins varir valdi því að þessi aðferð sé ekki endilega fýsileg á Íslandi.

„Við vitum ekki hvað gerist ef þú sleppir seinni skammtinum. Jafnvel þótt þú getir sýnt fram á ávinning til skamms tíma þá þýðir það ekki endilega að gjöf eins skammts sé fullnægjandi til lengri tíma,“ segir Magnús. Engar langtímarannsóknir liggja fyrir á virkni bóluefna gegn kórónuveirunni, enda bóluefnin öll ný af nálinni, né heldur rannsóknir þar sem sjúklingum er aðeins gefinn einn skammtur. Því sé ekki ástæða fyrir land í jafngóðri stöðu og Ísland að seinka seinni skammti og reyna að auka þekjuna.

Magnús segir hins vegar að niðurstöður rannsóknanna renni stöðum undir ákvarðanir Breta. „Bretar tóku þessa ákvörðun dálítið upp á sitt eindæmi að seinka síðari skammtinum, undir mótmælum lyfjafyrirtækjanna, sem bentu á að þetta skipulag bólusetninga hafi ekki verið rannsakað,“ segir Magnús. Röksemdir Breta hafi þó verið sannfærandi þar sem landið glímdi – og glímir enn – við mjög slæman faraldur. Niðurstaða rannsóknanna sýni að ákvörðun þeirra hafi verið rétt og gefi tilefni til þess að fleiri lönd í slæmri stöðu fari sömu leið.

„Við [á Íslandi] erum sem betur fer ekki í sömu stöðu. Við erum ekki að reyna að slökkva elda í augnablikinu og við þær kringumstæður tel ég ástæðulaust að ætla að lengja skammtabilið, ekki nema maður væri viss um að það veitti hugsanlega betri vörn. En ekki til þess að spara bóluefnið,“ segir Magnús.

Hann bendir enn fremur á að frekari rannsóknir um virkni bóluefnisins til lengri tíma, og áhrif þess að gefa fólki aðeins einn skammt af efninu, séu væntanlegar.

mbl.is