Forsvarsmenn English Pub stefna íslenska ríkinu

Frá English Pub. Krám og skemmtistöðum var gert að loka …
Frá English Pub. Krám og skemmtistöðum var gert að loka í faraldrinum en dyr þeirra hafa nú verið opnaðar að nýju. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forsvarsmenn English Pub hafa stefnt íslenska ríkinu vegna fyrirmæla heilbrigðisráðherra um að skemmtistaðir og krár þyrftu að loka vegna kórónuveirufaraldursins. Um er að ræða viðurkenningarmál en skaðabóta er ekki krafist.

„Í rauninni er verið að krefjast viðurkenningar á því að þetta ákvæði sem skyldar þá sem eiga krár og skemmtistaði til að loka sé ólögmætt. Dómkrafan er viðurkenning á því að ákvæði í nokkrum reglugerðum og auglýsingum um lokun kráa og skemmtistaða sé ólögmæt. Þ.e.a.s. að ráðherra hafi ekki haft heimild til þess að kveða á um lokun með þessum hætti,“ segir Auður Björg Jónsdóttir, lögmaður forsvarsmanna English Pub, í samtali við mbl.is.

„Þetta er höfðað sem viðurkenningarmál þannig að það er ekki verið að krefjast neinnar krónutölu, bara krefjast viðurkenningar á því að þetta hafi verið ólögmætt.“

English Pub er þekktur fyrir lukkuhjólið sem þar er að …
English Pub er þekktur fyrir lukkuhjólið sem þar er að finna. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Ekki spurning um krónutölu heldur viðurkenningu

Aðspurð segir Auður að skaðabótamál gæti verið höfðað í framhaldinu, en skaðabætur séu ekki aðalmálið.

„Gagnvart mínum umbjóðendum er þetta ekki spurning um einhverja krónutölu, þetta er líka spurning um að fá viðurkenningu um að á þeim hafi verið brotið.“

Ef niðurstaða dómara verður English Pub í vil gæti það verið fordæmisgefandi.

„Hérna er verið að mismuna nákvæmlega sömu hlutum“ 

Auður bendir á að það séu stjórnarskrárvarin réttindi fólks að stunda þá atvinnu sem það kýs. Þau réttindi megi ekki skerða nema með lögum.

„Ráðherra setti þarna reglugerð sem er ekki lög, það eru stjórnvaldsfyrirmæli, sem skerða þetta frelsi. Það má ekki nema með lögum. Í sóttvarnalögunum er hvergi kveðið á um að heimilt sé að loka einkareknu fyrirtæki. Það er heimild til að loka skólum, setja fólk í sóttkví og koma á samkomubanni. Þar er engin heimild til að loka ákveðnum tegundum fyrirtækja þannig að hún fór út fyrir það svið og þær heimildir sem hún hefur samkvæmt lögum,“ segir Auður.

Hún segir jafnframt að það hafi valdið hennar umbjóðendum mestum vonbrigðum að nánast sama starfsemi, krár með veitingaleyfi, hafi verið leyfð á meðan þeim var gert að loka.

„Hérna er verið að mismuna nákvæmlega sömu hlutum,“ segir Auður.

mbl.is