Grímur Grímsson snýr aftur

Grímur Grímsson stýrði áður miðlægri deild lögreglu.
Grímur Grímsson stýrði áður miðlægri deild lögreglu. mbl.is/Hari

Grímur Grímsson, tengiliður Íslands hjá Europol undanfarin þrjú ár mun taka við miðlægri rannsóknardeild lögreglu í apríl. Þetta staðfesti Grímur í samtali við mbl.is.

Var hann yfirmaður miðlægu rannsóknardeildarinnar til ársins 2017. „Starfið hjá Europol átti ávallt að vera tímabundið og eins og málin atvikuðust sný ég nú aftur til fyrri starfa,“ segir Grímur. 

Hann segir að fyrirfram hafi legið fyrir að hann myndi snúa aftur til starfa hjá lögreglunni þó ekki hafi legið fyrir innan hvaða deildar. Þetta hafi hins vegar orðið niðurstaðan eftir að Karl Steinar Valsson tók við stöðu hjá alþjóðadeild ríkislögreglustjóra.

„Ég hlakka til að koma til baka í LRH og miðlægu deildina. Ég hef oft sagt það að takturinn sé hraðari en í öðrum embættum. Síðan er það þannig að ég hef fengið mikla þekkingu í starfi hjá Europol í þrjú ár. Sú þekking á eftir að nýtast þeim sem stýrir miðlægri deild. Bæði í formi tengslanets og þeirrar þekkingar sem snýr að því að vita hvað Europol getur gert,“ segir Grímur. 

Þú sóttir um stöðu ríkislögreglustjóra. Varstu vonsvikinn að fá ekki starfið?

„Nei, ég tók það skref til að athuga hvort ég hefði hæfi og kæmi til álita í þá stöðu. Niðurstaðan var sú að svo var ekki og það voru engin vonbrigði,“ segir Grímur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert