Kveðst ekki ætla að lesa í orð Þórdísar

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra hefur trú á frumvarpi um hálendisþjóðgarð.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra hefur trú á frumvarpi um hálendisþjóðgarð. mbl.is/Eggert

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telja bæði að hægt verði að ljúka við stofnun hálendisþjóðgarðs á þessu kjörtímabili.

Skilja mátti á orðum Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, á Alþingi í gær, að hún teldi skynsamlegt að stíga varlega til jarðar með málið enn um sinn.

Hún sagði að jafnvel mætti huga að því að taka frekar fleiri minni skref en þetta eina stóra skref, sem lagt er upp með að taka með stofnun hálendisþjóðgarðsins. Ekki væri óeðlilegt að málið gæti tekið lengri tíma en áætlað var í fyrstu: „Ég held að þetta þurfi tíma,“ sagði Þórdís.

Það að koma á fót svona stórum þjóðgarði, svona stórum hluta af landinu, þarf auðvitað að vera í sátt og það er verkefni okkar að vinna að því. Það er erfitt að koma á fót risastórum þjóðgarði ef mjög takmörkuð sátt ríkir um það,“ sagði Þórdís jafnframt. 

Guðmundur Ingi segir í samtali við mbl.is: „Ég ætla ekki að lesa neitt í þessi orð hennar. Þetta er bara stjórnarmál, sem er í stjórnarsáttmála, og við munum vinna ötullega að því að gera það þannig úr garði að við getum klárað það.“

Trúirðu að svo fari? 

„Ég vonast til þess. Þetta er stórt og mikilvægt mál sem mun skipta íslenska náttúru og íslenska þjóð miklu máli, sérstaklega þegar við lítum til framtíðar,“ sagði Guðmundur.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Lilja Alfreðsdóttir og Katrín Jakobsdóttir við …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Lilja Alfreðsdóttir og Katrín Jakobsdóttir við Ráðherrabústaðinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórdís hafi sinnt málinu af heilindum

Katrín forsætisráðherra segir í samtali við mbl.is að henni þyki Þórdís Kolbrún hafa sinnt málefnum hálendisþjóðgarðs af miklum heilindum, eins og aðrir í ríkisstjórn.

Katrín stefnir hins vegar á að klára málið: „Að sjálfsögðu stefnum við að því að klára þau mál sem höfum einsett okkur að klára, en við vitum líka að þingið þarf sinn tíma.“ Þingnefnd hefur frumvarp um hálendisþjóðgarð til umfjöllunar þessa stundina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert