Kynna tillögur að 20 þúsund íbúa hverfi

Þessa teikningu má finna á kynningarvefnum.
Þessa teikningu má finna á kynningarvefnum. Teikning/Arkís arkitektar

Reykjavíkurborg efnir til forkynningar á deiliskipulagstillögum sem eru í vinnslu fyrir Ártúnshöfða og Elliðaárvog. Hefur nýr kynningarvefur verið opnaður, skipulag.reykjavik.is þar sem hægt er að skoða meginhugmyndir í fyrirhugaðri uppbyggingu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Segir þar að hugmyndir um að breyta gamalgrónu iðnaðarhverfi í lifandi og græna íbúðabyggð séu að taka á sig skýrari mynd.

„Með því að kynna hugmyndirnar áður en deiliskipulagið fer í auglýsingu er kallað eftir viðbrögðum íbúa og fyrirtækja þannig að taka megi tillit til sem flestra sjónarmiða áður en hið formlega ferli hefst. Gert er ráð fyrir að deiliskipulag fari í auglýsingu í byrjun apríl og þá tekur við lögbundið ferli,“ segir í tilkynningunni.

Bein útsending með kynningum þeirra sem komið hafa að skipulagi svæðisins verður fimmtudaginn 25. febrúar kl. 17.00-18.30 og verður þeim streymt inn á vefsíðu verkefnisins.

 Auk kynninga verður leitast við að svara spurningum sem berast fyrir fundinn eða eftir að útsending hefst. Spurningum verður svarað á fundinum og þær verða einnig settar á vefinn. Upptaka útsendingar verður aðgengileg að fundi loknum.

Borgarlínan á að liggja um hverfið.
Borgarlínan á að liggja um hverfið. Teikning/Arkís arkitektar

Tuttugu þúsund íbúar

Ártúnshöfði og Elliðaárvogur er stærsta þróunar- og uppbyggingarsvæði Reykjavíkur. Áætlað er að í þessum nýja borgarhluta sem kallaður er Höfðinn rísi allt að átta þúsund íbúðir og að íbúar geti orðið allt að 20.000 í fullbyggðum borgarhluta. Innan hverfisins er gert ráð fyrir þremur grunnskólum í bland við aðra þjónustu og atvinnustarfsemi. Hryggjarstykki uppbyggingarinnar er meðfram fyrirhugaðri Borgarlínu sem liggur í gegnum mitt skipulagssvæðið.

Undirbúningur hefur staðið yfir um nokkurt skeið. Árið 2015 var haldin hugmyndasamkeppni um þróun svæðisins og í framhaldi var unnið rammaskipulag sem var samþykkt í ársbyrjun 2016. 

Vistvænt og sjálfbært umhverfisvottað hverfi

Nálægð hverfisins við strandlengjuna og grænan útivistarás Elliðaárdalsins er sögð skapa því mikla sérstöðu og gera jafnframt kröfur um að borgarumhverfi og byggingar séu sem mest vistvæn og sjálfbær.

„Í hverfinu verða megináherslur Græna plansins um þéttbyggt borgarumhverfi, hágæða almenningssamgöngur, góða möguleika til samgönguhjólreiða, lífsgæða, sem og grænt og fallegt umhverfi að veruleika. Stefnt er að því að deiliskipulagsáætlanirnar fyrir Ártúnshöfða og Elliðavog fái BREEAM umhverfisvottun.“

Deiliskipulag í auglýsingu fyrir páska

Heildarsvæðinu hefur verið skipt upp í fimm deiliskipulagssvæði og verður deiliskipulag fyrir svæði 1 og 2 auglýst fyrir páska. Þessi svæði verða kynnt sérstaklega í útsendingunni á fimmtudag. Fasteignaþróunarfélögin Klasi og Heild eiga lóðir á þessum svæðum og hafa þau unnið með Reykjavíkurborg að uppbyggingarhugmyndum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert