„Það á enginn neitt í pólitík“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kveðst ánægð með niðurstöðu forvals Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi, sem hefur verið eitt helsta vígi flokksins frá stofnun hans. „Ég held að þetta sé bara mjög sterkur listi sem við erum að fara að bjóða fram,“ segir ráðherra í samtali við mbl.is.

Í forvalinu var Óli Halldórsson, sveitarstjórnarmaður í Norðurþingi, kjörinn oddviti flokksins. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður VG, sóttist eftir sama sæti en hlaut ekki framgang. Bjarkey hefur lýst þessu sem vonbrigðum.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna. mbl.is/Arnþór

Katrín segir ekki skjóta skökku við að þingflokksformaður sé felldur í prófkjöri.

„Það á enginn neitt í pólitík. Við bjóðum okkur fram og leggjum okkar þannig í mat félaga okkar. Ég hef lagt áherslu á að séu forvöl í öllum kjördæmum fyrir kosningar og það verður raunin, af því að mér finnst mjög mikilvægt að félagarnir geti tjáð sig um okkur öll,“ segir Katrín.

Steingrímur J. Sigfússon fráfarandi oddviti hefur ætíð notið mikils fylgis í kjördæminu en sest nú í helgan stein.

„Það hlaut að koma að því,“ segir Katrín kímin en bætir svo við: „Við vitum öll að enginn er eilífur. Ég held að við eigum heilmikið fylgi í kjördæminu og reyndar held ég að það eigi líka við um önnur kjördæmi.“ Hún telur það ekki munu skaða flokkinn að missa Steingrím.

Setning alþingis 2017, forsætisráðherra og forseti þingsins.
Setning alþingis 2017, forsætisráðherra og forseti þingsins. mbl.is/Eggert

Ritari ekki í efstu fimm sætum

Þátttakan í forvalinu var veruleg, 648 manns kusu, sem samsvarar um 62% af kjörskrá félaga í kjördæminu. Katrín fagnar mikilli þátttöku.

Niðurstöðurnar voru eins og að neðan segir en það hefur vakið umtal að ritari Vinstri grænna á landsvísu, Ingibjörg Þórðardóttir, hafi ekki að minnsta kosti hafnað á meðal efstu fimm í forvalinu.

  • 1. sæti Óli Hall­dórs­son með 304 atkvæði í 1. sæti
  • 2. sæti Bjarkey Olsen Gunn­ars­dóttir með 293 atkvæði í 1.-2. sætið
  • 3. sæti Jódís Skúla­dóttir með 297 atkvæði í 1.-3. sæti
  • 4. sæti Kári Gauta­son með 337 atkvæði í 1.-4. sæti
  • 5. sæti Jana Salóme Ingi­bjargar Jós­eps­dóttir með 322 atkvæði í 1.-5. sæti
Óli Halldórsson er sveitarstjórnarmaður í Norðurþingi.
Óli Halldórsson er sveitarstjórnarmaður í Norðurþingi. mbl.is/Valli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert