Fráleitt að refsa 15 ára drengjum

Konur eru í miklum meirihluta þeirra sem ljúka háskólanámi á …
Konur eru í miklum meirihluta þeirra sem ljúka háskólanámi á Íslandi. Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson

Frá Háskóla Íslands brautskrást um þessar mundir um það bil tvær konur fyrir hvern karl úr grunnnámi en fyrir hvern karl með meistaragráðu brautskrást um þrjár konur. Konur eru einnig í miklum meirihluta þeirra sem útskrifast frá Háskólanum á Akureyri. Greinar þar sem karlar voru áður ráðandi eru ýmist smám saman að verða kvennagreinar eða eru þegar orðnar það. 

Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, hefur velt þessum málum fyrir sér. Um leið og hann fagnar því að menntun kvenna aukist, sem hafi í för með sér betri kjör og fleiri tækifæri þeim til handa, þá sé umhugsunarvert að á sama tíma sé farið að halla á karlana. Lengi hafi hallað á konur í þjóðfélaginu þegar kom að menntun, tækifærum og launum en góður árangur hafi náðst í baráttu þeirra fyrir bættum kjörum. Mikið hefur verið rætt og ritað um kvennabaráttu og jafnrétti kynjanna gegnum tíðina og núna þegar taflið virðist vera að snúast við, alla vega í skólakerfinu, megi ekki falla í þá gryfju að horfa fram hjá því og taka ekki á vandanum.

Í ljósi sögunnar gæti einhver spurt hvort þessi þróun sé ekki bara sjálfsögð og í góðu lagi. Er ekki tímabært að konur komist til meiri áhrifa í samfélaginu og taki meira til sín á kostnað karla? Gylfi svarar því til að fimmtán ára drengir sem nú sitja á skólabekk beri enga ábyrgð á því hvað fyrri kynslóðir gerðu og fyrir vikið fráleitt að refsa þeim. Þeir voru ekki fæddir þegar hallaði sem mest á kvenþjóðina í námi og starfi. Og þótt meirihluti forstjóra í stórum fyrirtækjum sé enn sem komið er karlar þá réttlæti það ekki að margir ungir menn beri skarðan hlut frá borði. Skólar eiga að höfða jafnmikið til drengja og stúlkna.

Flestir eru sammála um að styrkja þurfi stöðu drengja í …
Flestir eru sammála um að styrkja þurfi stöðu drengja í skólakerfinu. Eggert Jóhannesson


Ráðist sé að rótum vandans

Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, segir mikilvægt að ráðast að rótum vandans. „Það ræðst ekki þegar drengir eru orðnir átján eða nítján ára hverjir fara í háskóla og hverjir ekki. Þá er alltof seint að setja plástur á sárin. Við þurfum að byrja strax og grunnskólagangan hefst; vinna vinnuna betur þegar börnin eru sex og sjö ára. Við vorum þess umkomin að fara í markvissar aðgerðir varðandi stöðu kvenna á vinnumarkaði, þess vegna hljótum við líka að geta tekið með markvissum hætti á vanda drengja í skólakerfinu. Markviss vinna skilar árangri. Virkja þarf drengina frá fyrsta degi, örva áhuga þeirra og gera skólann merkingarbærari. Skólinn þarf að tengja við drengina og taka betur utan um þá.“

– Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér? Heldurðu að staða drengja í íslenska skólakerfinu verði orðin betri eftir tíu eða tuttugu ár?

„Á einhverjum tímapunkti komum við til með að bregðast við sem samfélag. Spurningin er bara hvort við erum tilbúin að fórna einni kynslóð drengja. Þurfum við að brenna okkur áður en við sækjum vatnið? Mitt svar er að við þurfum að bregðast við sem fyrst.“

Upplýsingaóreiðan olía á eldinn

Viðar lítur á upplýsingaóreiðuna, sem við búum við nú um stundir, sem olíu á eldinn. Hún sé allsráðandi og ekki sjái fyrir endann á henni. „Það þýðir að enn þá mikilvægara er að gera borgarana betur læsa á gögn og upplýsingar og hvar er betra að hefja þá vinnu en í skólakerfinu? Ef stór hluti drengja fær ekki þetta upplýsingalæsi veikir það stöðu þeirra til lengri tíma litið sem og samfélagsins alls. Trumpisminn í Bandaríkjunum er gott dæmi um þetta. Heimurinn er allt annar nú en fyrir tuttugu árum og það er hættuleg þróun til lengri tíma ef stór þjóðfélagshópur fær ekki menntun og þá þekkingu, upplýsingalæsi og víðsýni sem henn fylgir.“

Nánar er fjallað um vanda drengja í skólakerfinu í fjórðu og síðustu greininni í greinaflokki í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert