Drög um tilslakanir komin til Svandísar

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur fengið drög að minnisblaði í hendurnar frá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni og staðfestir að þau drög feli í sér tilslakanir á sóttvarnaaðgerðum innanlands. Nánar gat hún ekki tjáð sig um það. 

„Ég er komin með minnisblað í drögum,“ sagði Svandís í samtali við mbl.is.

Það þýðir þá að þú ert ekki komin með hið endanlega minnisblað, eða hvað?

„Nei, það er ekki endanlegt. Hann er búinn að senda mér drög.“

Spurð hvort í minnisblaðinu sé kveðið á um einhverjar tilslakanir sóttvarnaaðgerða jánkar Svandís því en segir þó að hún geti ekki greint nánar frá efnisatriðum draganna.

Öllum 16 ára og eldri boðin bólusetning fyrir júnílok

Svandís segir að miðað við spár nýútgefins bólusetningardagatals verði öllum þeim 16 ára og eldri sem vilja þiggja bólusetningu boðið að gera það. Til þess að svo megi verða er ljóst að nota verði bóluefni frá fleiri framleiðendum en hingað til hafa sent bóluefni til landsins; Pfizer, Moderna og AstraZeneca.

Þannig þarf því að treysta á að spár um afhendingu Janssen, Curevac og Sanofi standist. Hins vegar segir Svandís að fyrirvarar séu á því, til að mynda vegna þess að ekki sé komin afhendingaráætlun frá þeim framleiðendum eða vegna þess að bóluefni þeirra hafi ekki fengið markaðsleyfi í Evrópu. 

Verði það að veruleika, segir hún þó að öllum 16 ára og eldri verði boðin bólusetning gegn kórónuveirunni fyrir júnílok. 

„Það sem við höfum í hendi eru afhendingaráætlanir út mars,“ segir Svandís. 

Í tengslum við þetta var Svandís spurð að því hvort einhverjar frekari upplýsingar væru væntanlegar frá umræddum framleiðendum, sem ekki enn hafa gefið út nákvæmar afhendingaráætlanir. 

„Janssen hefur talað um markaðsleyfi, minnir mig, um miðjan mars í Evrópu,“ segir Svandís og bendir á að frekari upplýsingar megi finna á vef landlæknis, boluefni.is.

Óvíst hversu mikið þarf til að hjarðónæmi náist

Spurð um hversu hátt hlutfall þjóðarinnar verði bólusett gegn veirunni segir Svandís að það eigi eftir að ráðast. Aðalatriðið sé að um 280-290 þúsund manns verði boðin bólusetning. Hversu marga þarf að bólusetja til að hjarðónæmi náist hér á landi segir Svandís að eigi eftir að ráðast með framvindu bólusetninganna sjálfra. 

„Aðalatriðið er að bjóða öllum bólusetningu, að það sé almenn þátttaka vegna þess að þegar maður ákveður að fara í bólusetningu er maður auðvitað að gæta að eigin heilsu en fyrst og fremst að heilsu samfélagsins. Og þess vegna er mikil þátttaka mikilvæg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert