Rúrik til liðs við Viaplay

Rúrik Gíslason hitar upp á HM í Rússlandi.
Rúrik Gíslason hitar upp á HM í Rússlandi. Ljósmynd/Skapti Hallgrímsson

Fyrrverandi landsliðsmaðurinn í knattspyrnu og tónlistarmaðurinn Rúrik Gíslason, sem spilaði 53 landsleiki fyrir Ísland, mun leiða knattspyrnuumfjöllun Viaplay á Íslandi frá tímabilinu 2021/2022.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Viaplay tryggði sér nýlega rétt til að sýna frá Þjóðadeild Evrópu, undankeppni EM karla í knattspyrnu sem og Meistaradeild Evrópu, Evrópudeildina og deilir réttinum að nýrri Evrópukeppni UEFA Conference League með Sýn.

Ég hlakka mikið til að verða hluti af teymi Viaplay og við ætlum að leggja allt í að færa áhorfendum heimsklassaumfjöllun um fótbolta á Íslandi. Ég tel mig hafa mikið fram að færa með reynslu minni af atvinnumennsku í fótbolta og er spenntur að leggja mitt af mörkum í skemmtilegri, grípandi og áhugaverðri umfjöllun um Meistaradeildina, Evrópudeildina, Conference League sem og leiki íslenska landsliðsins,“ er haft eftir Rúrik sem lagði skóna á hilluna í árslok 2020.

„Þar sem Rúrik hefur nýlokið ferli sínum sem atvinnumaður í knattspyrnu kemur hann með ferska nálgun á viðfangsefnið, mikla þekkingu og byggir þar að auki á eigin reynslu af því að leika knattspyrnu í hæsta gæðaflokki,“ segir Kim Mikkelsen, yfirmaður íþróttamála hjá NENT.

mbl.is