100.000 í sekt fyrir að sýna ekki vottorð

Ríkissaksóknari hefur tekið saman hvaða sekt liggur við hvaða brotum …
Ríkissaksóknari hefur tekið saman hvaða sekt liggur við hvaða brotum á sóttvarnalögum. Mynd tengist frétt óbeint. mbl.is/Kristinn Magnússon

Allt að 250.000 króna sekt getur komið til ef fólk brýtur gegn sóttkvíarskyldu við komuna til landsins, samkvæmt nýjum fyrirmælum ríkissaksóknara.

Sektir vegna brota á sóttvarnalögum hafa ekki verið fullkomlega skýrar framan af en með nýjum fyrirmælum leitast ríkissaksóknari við að koma því í betra horf.

Þar sem nú er skylda að framvísa vottorði um neikvæða niðurstöðu PCR-prófs við Covid-19 við landamærin, getur 100.000 króna sekt legið við að fylgja því ekki. Sekt fyrir að neita að fara í sýnatöku nemur sömu upphæð.

Sekt vegna brota á grímuskyldu getur numið 500.000 krónum fyrir skipuleggjanda viðburðar sem ekki tryggir að henni sé fylgt. Fyrir einstaklinga sem ekki nota grímur er sektin á bilinu 10-100 þúsund krónur.

Sama gildir um viðburði þar sem of margir koma saman, þar getur sekt fyrir skipuleggjanda verið á bilinu 250.000-500.000.

Hér má lesa fyrirmæli ríkissaksóknara til lögreglu.

mbl.is

Bloggað um fréttina