220 erindi innflytjenda á 12 dögum

Joanna Marcinkowska er verkefnastjóri.
Joanna Marcinkowska er verkefnastjóri. Ljósmynd/Aðsend

Rúmlega 220 erindi hafa borist til Ráðgjafastofu innflytjenda á þeim 12 dögum síðan verkefnið var sett á laggirnar. Flest erindi snúa að því hvernig beri að skrá sig löglega í landið og hvernig megi bera sig að við það að sækja sér bætur á borð við húsaleigu- og atvinnuleysisbætur að sögn Joönnu Marcinkowsku verkefnastjóra.

Vita ekki um réttindi sín 

Hún segir að með því að benda fólki sem ekki þekkir íslenska kerfið megi létta álag á öðrum stofnunum. „Fólk sem kemur frá evrópskum löndum þekkir kerfið hér betur en engu að síður eru t.d. húsaleigubætur ekki til annars staðar. Margir vita ekki hverju þeir eiga rétt á,“ segir Joanna.

Hún segir að fólk sem kemur utan EES svæðisins hafi alla jafna minni þekkingu á kerfinu. Ráðgjafarnir eru fimm og tala alls átta tungumál, íslensku, ensku, pólsku, spænsku, portúgölsku, litháísku arabísku og rússnesku. Að auki er í boði að njóta liðssinnis símatúlks ef erindið er á öðru tungumáli.

Léttir álag á Vinnumálastofnun 

Að sögn Joönnu snúa fyrirspurnirnar í mörgum tilfellum að því hvernig beri að skrá sig löglega inn í landið. Að auki vilji margir fá upplýsingar um atvinnuleysisbætur og þjónustu stéttarfélaga.

„Það er mikið álag á Vinnumálastofnun og margir vilja upplýsingar um atvinnuleysisbætur.  Vinnumálastofnun getur ekki annað öllum fyrirspurnum vegna þess álags sem nú ríkir þar og þar getum við hjálpað,“ segir Joanna. 

mbl.is