Grá svæði á milli Norðurlanda

Áður höfðu norsk­ir lækna­nem­ar fengið lækna­leyfi sitt eft­ir sex ára …
Áður höfðu norsk­ir lækna­nem­ar fengið lækna­leyfi sitt eft­ir sex ára nám og átján mánaða „turn­us“, sem var talið sam­bæri­legt ís­lensku kandí­dats­ári. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Starfshópur í heilbrigðisráðuneytinu skoðar mál íslenskra sérnámslækna í Noregi sem þurfa að endurtaka kandídatsárið sitt ef ekkert er að gert. Starfshópurinn fundar í dag en hann hefur fundað einu sinni áður frá áramótum. 

„Við erum líka að skoða þetta á vettvangi Norðurlandaráðs að því er almennt varðar grá svæði á milli landa. Þannig að við getum stillt þessa hluti af,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra um málið.

mbl.is greindi frá því síðastliðinn miðvikudag að íslenskir sérnámslæknar sem stunda sér­nám í Nor­egi sjái fram á að þurfa að end­ur­taka kandí­dats­árið sitt vegna breyt­inga á skipu­lagi lækn­is­náms þar í landi. Útlit er fyr­ir að sama staða komi upp fyr­ir ís­lenska sér­náms­lækna í Svíþjóð inn­an tíðar. 

Í viðtali við mbl.is kallaði Ragnheiður Vernharðsdóttir sérnámslæknir eftir aðgerðum frá stjórnvöldum. Þá sagði hún að staðan geti haft veru­leg áhrif á ís­lenskt heil­brigðis­kerfi.

„Þetta er auðvitað svolítið fjölþætt. Þetta lýtur að menntuninni, þetta lýtur að heilbrigðiskerfunum og líka bara að norrænu samstarfi þannig að það eru margir vinklar á þessu og við erum með þetta til skoðunar,“ segir Svandís um málið. 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Svör við fyrirspurnum hafa ekki borist

Skipu­lagi náms í lækn­is­fræði í Nor­egi var breytt árið 2019 þannig að lækna­nem­ar fá nú fullt lækn­inga­leyfi eft­ir sex ára há­skóla­nám. Sér­námið hefst svo á átján mánuðum af því sem sam­bæri­legt er ís­lensku kandí­dats­ári. Áður höfðu norsk­ir lækna­nem­ar fengið lækna­leyfi sitt eft­ir sex ára nám og átján mánaða „turn­us“, sem var talið sam­bæri­legt ís­lensku kandí­dats­ári. Því komust lækna­nem­ar frá Íslandi beint inn í sér­námið, án þess að þurfa að end­ur­taka kandí­dats­árið eins þeir þurfa nú að gera.

Spurð hvers vegna ekki hafi verið gripið til aðgerða í þessu máli strax og ljóst var að breytingar yrðu á skipulagi námsins í Noregi segir Svandís:

„Það er starfshópur í þessu sem er að skoða þetta núna.“

mbl.is sendi fyrirspurn á heilbrigðisráðuneyti Noregs annars vegar og heilbrigðisráðuneyti Íslands hins vegar vegna málsins en svör við þeim hafa ekki borist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert