Landsréttarmálið kostað 141 milljón

Sigríður Andersen lét af störfum sem dómsmálaráðherra í mars 2019.
Sigríður Andersen lét af störfum sem dómsmálaráðherra í mars 2019. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kostnaður íslenska ríkisins vegna ólögmætrar skipunar Sigríðar Á. Andersen á dómurum í Landsrétt árið 2017 hefur hingað til numið tæpri 141 milljón króna.

Þetta kemur fram í svari Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn Helgu Völu Helgadóttur þingflokksformanns Samfylkingarinnar.

Kostnaður vegna greiðslna til fjögurra settra dómara í stað þeirra, sem þurftu að víkja frá störfum vegna þess að vafi lék á um lögmæti skipunar þeirra, hefur vegið þyngst og nemur um 73 milljónum króna.

Sérfræðiráðgjöf til dómsmálaráðuneytisins í aðdraganda og í kjölfar niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu hefur kostað 36 milljónir. 

Dæmdur málskostnaður vegna mála sem hafa ekki fallið ríkinu í hag fyrir íslenskum dómstólum hefur verið upp á meira en tíu milljónir króna hingað til.

Fyrirspurn Helgu Völu er í ellefu liðum en af svari Áslaugar er að dæma að enn eigi viss kostnaður eftir að falla til, svo sem vegna starfa hæfnisnefndar, auglýsinga og annars kostnaðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina