Segja upp öllu starfsfólki og stefna í strand

Þorsteinn Baldur Friðriksson, forstjóri Teatime Games.
Þorsteinn Baldur Friðriksson, forstjóri Teatime Games. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrirtækið Teatime sagði upp öllum 16 starfsmönnum sínum í gær og virðist allt stefna í gjaldþrot fyrirtækisins. Í fyrrasumar gaf fyrirtækið út snjallsímaleikinn vinsæla, Trivia Royale, sem toppaði vinsældarlista í Bandaríkjunum á smáforritamarkaði Apple, AppStore. Þrátt fyrir vinsældirnar segir Þorsteinn B. Friðriksson að því miður sé ekki til fjármagn til þess að halda starfseminni áfram.

„Við erum búin að vera að vinna núna undafarin ár að því að byggja upp tækni, spennandi tækni, í þessum símaleikjabransa. Við gáfum svo út leik í sumar sem gekk mjög vel og náði fyrsta sæti á bandaríska vinsældarlistanum í AppStore og erum búin að vera núna í einhverja mánuði í talsvert miklum viðræðum um áframhaldandi fjármögnun og jafnvel sölu á fyrirtækinu, sem að lokum báru ekki árangur,“ segir Þorsteinn við mbl.is.

Gríðarleg verðmæti sem sitja eftir

Þorsteinn segir þó að öll uppbyggingarvinnan á bak við Teatime sé ekki til einskis. Hann og viðskiptafélagar hans stofnuðu fyrirtækið Plain Vanilla um árið, sem gaf út hinn geysivinsæla leik QuizUp. Þrátt fyrir að hvorki Plain Vanilla né Teatime hafi hlotið það brautargengi sem hann hafi óskað segir Þorsteinn að rekstur fyrirtækjanna skilji margt eftir sig. 

„Þrátt fyrir að hvorki TeaTime né PlainVanilla fengju þann endi sem maður hefði kosið þá er þetta sem við erum að gera að taka þátt í ákveðinni rússíbanareið og það hefur í för með sér ákveðnar hæðir og lægðir. Og þetta er ósköp eðlilegur hlutur í þessu ferðalagi sem maður er á.

Bæði með Plain Vanilla og með Teatime þá fáum við gríðarlega mikið fjármagn erlendis frá, bæði frá Bandaríkjunum og annars staðar frá, aðallega áhættufjárfestingarsjóðum, sem síðan er eytt í starfsmenn hérna á Íslandi. Í því ferli er verið að gefa íslensku ungu starfsfólki mikla reynslu sem það síðan tekur með sér og nýtir til að búa til meiri verðmæti seinna. Við höfum séð það að bæði frá QuizUp og Plain Vanilla er maður að senda heilu herfylkingarnar af ótrúlega hæfu starfsfólki út á vinnumarkaðinn sem skapar síðan mikil verðmæti fyrir Ísland.“

Spenntur fyrir næsta verkefni

Þorsteinn segist ekki enn ákveðinn í hvað taki við hjá sér nú þegar Teatime stefnir í strand. Hins vegar segist hann hvergi nærri hættur. 

„Núna vil ég tryggja það að við gerum sem best úr þessum sögulokum hjá þessu fyrirtæki og nú er bara að huga að næsta verkefni, sem örugglega verður eitthvert nýtt fyrirtæki sem skapar enn meiri verðmæti.“

mbl.is

Bloggað um fréttina