Sjö mánuðir fyrir brot gegn skattalögum

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þór

Karlmaður var í síðustu viku dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í sjö mánaða fangelsi fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum og fyrir peningaþvætti sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður einkahlutafélags.

Brotin fólu í sér að maðurinn stóð ekki skil á innheimtum virðisaukaskatti og afdreginni staðgreiðslu auk þess að hafa í nokkrum tilvikum ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum og skilagreinum vegna staðgreiðslu á lögmæltum tíma. Nema skattabrot hans samtals rúmlega 20 milljónum króna og að hafa nýtt ávinninginn í þágu rekstrar félagsins.

Ákærði er jafnframt dæmdur til að greiða 35.000.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins en sæti ella fangelsi í tólf mánuði.

Eins og áður segir var karlmaðurinn dæmdur í sjö mánaða fangelsi. Fullnusta refsingarinnar skal þó falla niður að tveimur árum liðnum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði skilorði.

Við ákvörðun refsingar var til refsimildunar litið til játningar ákærða fyrir dómi en hann játaði skýlaust þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru.

mbl.is