Var í lagi að klóna Sám?

Elín Edda

„Samson varð til vegna eftirspurnarinnar og vegna framboðsins,“ segir í nýrri ljóðabók.

„Markaðurinn skóp nýjan Sám úr Sámi. En það var ekki Sámur. Það var Samson.“

Í ljóðabókinni Klón er vinsamlega deilt á ákvörðun forsetahjónanna fyrrverandi, Ólafs Ragnars Grímssonar og Dorritar Moussaieff, um að klóna Sám hund sinn heitinn og fá í stað hans Samson, eins og hefur verið fjallað um í fjölmiðlum.

Höfundar bókarinnar eru Ingólfur Eiríksson, bókmenntafræðingur og skáld, og Elín Edda Þorsteinsdóttir grafískur hönnuður.

„Sárt ertu leikinn, Sámur fóstri.“ Ingólfur Eiríksson skáld og Elín …
„Sárt ertu leikinn, Sámur fóstri.“ Ingólfur Eiríksson skáld og Elín Edda Þorsteinsdóttir myndlistarkona eru höfundar nýrrar bókar um klón. Ljósmynd/Aðsend

„Ég byrjaði að skrifa þetta af því að mér fannst þetta ógeðslega fyndið. En eftir því sem ég skrifaði meira og meira fannst mér þetta minna og minna fyndið – í raun og veru bara tragedía,“ segir Ingólfur í samtali við mbl.is. 

Ingólfur fór að velta fyrir sér þeirri spurningu hvort réttlætanlegt sé að slá eigin sorg á frest á kostnað nýrrar lífveru, sem er þar með eilíflega meinað að lifa sjálfstæðu lífi á eigin forsendum. 

Ingólfur fann engin endanleg svör, ekki frekar en ljóðskáld gera almennt, en leitin gat af sér bókina, sem verður fagnað í útgáfuhófi hjá Forlaginu á fimmtudaginn. Hún er myndskreytt og hönnuð af Elínu Eddu en skrifuð af Ingólfi.

Dalí átti bróður

Elín Edda

Eins og sést á myndinni kemur stórmálarinn Salvador Dalí við sögu í bók þar sem aðalefnið er við fyrstu sýn klónaður hundur. 

Hvers vegna? 

„Dalí átti bróður sem hét Salvador Dalí og dó ungur, áður en Dalí fæddist. Foreldrarnir eignuðust annað barn, sem sé Dalí sem við þekkjum, og skírðu hann eftir látnum bróður sínum. Þau komu síðan fram við hann eins og látna soninn, þannig að hann fékk aldrei að verða sjálfstæð manneskja á eigin forsendum,“ segir Ingólfur.

Hvort greina megi sameiginlega drætti í örlögum hundsins og málarans spænska er síðan undir lesendum komið.

Ingólfur segist ekki vita til þess að forsetahjónin hafi haft veður af útkomu bókarinnar en kveðst ekki gera ráð fyrir öðru en að þau fagni umræðu um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert