Eldum rétt og Menn í vinnu höfðu betur í máli Rúmena

Frá dreifingarstöð Eldum rétt á Nýbýlavegi í Kópavogi.
Frá dreifingarstöð Eldum rétt á Nýbýlavegi í Kópavogi. mbl.is/Hari

Dómur féll í máli fjögurra Rúmena, sem störfuðu fyrir Eldum rétt í gegnum starfsmannaleiguna Menn í vinnu, í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Niðurstaða dómsins var að vísa frá öllum kröfum á hendur Eldum rétt og þrotabúi Manna í vinnu og sýkna fyrrverandi stjórnendur Manna í vinnu. Málið var rekið með aðstoð Eflingar, en starfsmenn félagsins höfðu meðal annars gert margvíslegar athugasemdir við uppgjör launa og aðbúnað starfsfólksins.

Um er að ræða mál fjögurra Rúmena sem komu til starfa hjá Eldum rétt í janúar 2019 og störfuðu þar í um einn mánuð. Ágreiningur var uppi um hvort laun hafi verið vangreidd og hvort að ólöglega hafi verið staðið að skuldajöfnun án heimildar. Þá fóru fjórmenningarnir fram á 1,5 milljón á mann í bætur vegna vanvirðandi framkomu, en farið var fram á að bæði Menn í vinnu, Eldum rétt og fyrrverandi yfirmenn Manna í vinnu bæru óskipta ábyrgð á kröfunum. Við aðalmeðferð var fallið frá kröfu um vangoldin laun.

Niðurstaða héraðsdóms er nokkuð afgerandi. Þannig er máli gegn þrotabúi Manna í vinnu vísað frá þar sem gjaldþrotaskiptum þess hafi verið lokið áður án þess að neinar athugasemdir hafi borist frá fjórmenningunum, sem samt gerðu kröfu í búið. Vegna þessa hafi einnig verið óhjákvæmilegt að vísa frá málinu gegn Eldum rétt, enda hafi verið byggt á lögum um starfsmannaleigur þar sem kemur fram að stefna þurfi bæði notendafyrirtækinu (Eldum rétt í þessu tilfelli) og starfsmannaleigunni. Þar sem málinu gegn starfsmannaleigunni sé vísað frá eigi það sama við um Eldum rétt.

Halla Rut Bjarnadóttir, fyrrverandi forsvarsmaður Manna í vinnu, ásamt verjanda …
Halla Rut Bjarnadóttir, fyrrverandi forsvarsmaður Manna í vinnu, ásamt verjanda sínum við aðalmeðferð málsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stefnan gegn yfirmönnunum fyrrverandi er tekin fyrir efnislega í dóminum, en Rúmenarnir höfðu í stefnu sinni sagt að þeir ættu inni ógreidd laun og að kostnaður, eins og flugmiðar, flugrúta, líkamsræktargjöld og fleira, hafi í óleyfi verið frádreginn af launum þeirra. Þá hafi íbúðarhúsnæði þeirra verið iðnaðarhúsnæði og vörugeymsla sem brjóti gegn húsaleigulögum og í raun verið ómannúðlegar aðstæður.

Var því lýst í stefnunni að í hverju herbergi hafi 6-8 verið saman og að meðalleiga hafi verið upp á 57 þúsund krónur. Er jafnframt sagt að leigugreiðslurnar sem teknar voru af launaseðli viðkomandi hafi verið afleiðingar þvingana og nauðungar af hálfu starfsmannaleigunnar. Þannig hafi Menn í vinnu nýtt sér bágindi og fákunnáttu fólksins og beitt það vanvirðingu, þvingunum og nauðungarvinnu og haft yfirburðarstöðu gagnvart því.

Í dóminum er tekið fram að seinagangur með launagreiðslur, sem lagt var upp með í stefnunni, eigi ekki við rök að styðjast, heldur bendi gögn málsins frekar til þess að laun hafi verið greidd fyrr en ráðningasamningur tilgreindi. Varðandi frádrátt af launum er ekki talið að taka þurfi afstöðu til þess þar sem sá hluti málsins snúist bara að Mönnum í vinnu. Þá er tekið fram að um hafi verið að ræða þjónustu sem viðkomandi nýttu sér og hefði annars kostnað þá fjármuni. Almennt segir dómurinn að skýringar Rúmenanna varðandi þessa liði hafi verið ótrúverðugar.

Varðandi húsnæðismálin telur dómurinn að lýsingar í stefnu séu ekki í neinu samræmi við lýsingar í kærunni um aðstöðuna. Þannig hafi enginn þeirra sem stefndu lýst því að 6-8 væru í hverju herbergi eins og fullyrt var í stefnunni. Hafi þeir lýst 3-5 í hverju herbergi. Lýsingin á aðbúnaði hafi þá ekki heldur verið í samræmi við myndir sem Rúmenarnir hafi tekið og deilt á samfélagsmiðlum áður en málið kom upp. Þannig hafi framburður fólksins um þessi mál verið afar reikull.

Við aðalmeðferðina fyrr á árinu.
Við aðalmeðferðina fyrr á árinu. Kristinn Magnússon

Þá gagnrýnir dómurinn að engar tilraunir hafi verið gerðar til að fá frekari gögn um aðra leigjendur til að athuga hvort þeir væru þar með samþykki leigusala eða ekki.

Dómurinn segir einnig að þrátt fyrir alvarlegar ásakanir bæði stefnenda og stéttarfélagsins Eflingar um ástand húsnæðisins og sögu starfsmanna Eflingar að mansalsteymi hafi verið virkjað eftir að málið kom upp, þá hafi hvorki verið óskað eftir úttekt á húsnæðinu né kallað eftir lögreglurannsókn, „sem fullt tilefni hefði þó verið til miðað við þessar ásakanir,“ segir í dóminum.

Er niðurstaða dómsins eins og fyrr segir að sýkna yfirmennina fyrrverandi og þurfa Rúmenarnir að greiða þeim og Eldum rétt eina milljón hverjum í málskostnað, samtals fjórar milljónir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert