Fimm áfram í varðhaldi

Krafist hefur verið áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir fimm manns.
Krafist hefur verið áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir fimm manns. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Héraðsdómur Reykjavíkur úskurðaði í dag fimm einstaklinga í áframhaldandi gæsluvarðhald til 3. mars vegna manndráps í Rauðagerði.

Þetta staðfestir Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Alls eru því sjö manns í gæsluvarðhaldi vegna manndrápsins.

Tveir voru látnir lausir í gær vegna málsins en úrskurðaðir í farbann fram til 9. mars næstkomandi.

Leituðu til lögregluyfirvalda utan landsteinanna

Spurður hvort lögreglan hafi átt í samstarfi við lögregluyfirvöld erlendis vegna málsins segir Margeir að slíkt hafi einungis átt sér stað í formi fyrirspurna. Grunaðir í málinu hafi ekki sloppið út fyrir landsteinana líkt og komið hefur fram, þrátt fyrir farbann tveggja málsaðila.

Þá segist hann ekki geta upplýst um eðli morðvopnsins en nokkrir fréttamiðlar hafa greint frá því að um skammbyssu með hljóðdeyfi væri að ræða.

Margeir segir að rannsókninni miði vel miðað við umfang þess og spurður segir hann að þar sem málið eigi rætur sínar að rekja til deilna innan undirheimanna sé umfang þess umtalsvert.

mbl.is