Lausamunir féllu víða úr hillum

Víðir Reynisson.
Víðir Reynisson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Talsvert margar tilkynningar hafa borist lögreglunni um að lausamunir hafi fallið úr hillum eftir jarðskjálftann sem varð í morgun en engar tilkynningar hafa borist vegna meiðsla á fólki.

Þetta segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, við K100 spurður út í skjálftann.

Lögreglan er í eftirlitsleiðangri vegna skjálftans, auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunnar ætlaði að fljúga yfir svæðið þar sem upptökin voru og athuga m.a. með göngufólk.

Ekki er talið að alvarlegar truflanir hafi orðið á raforkuflutningi.

Spurður nánar út í skemmdir segir Víðir að skjálfti upp á 5,7 eigi ekki að valda tjóni á byggingum. Lausamunir geti aftur á móti dottið. „Þetta minnir okkur fyrst og fremst á að vera ekki með lausamuni sem geta fallið á fólk, hvorki á vinnustöðum né heimilum,“ segir Víðir.

mbl.is
Loka