Með sjóriðu á níundu hæð

Hús verslunarinnar.
Hús verslunarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, var á miðjum fjarfundi með vinnufélögum sínum og samstarfsmanni á Sauðárkróki þegar jarðskjálftinn gekk yfir í morgun.

„Hann sá okkur vinnufélagana sveiflast til á skjánum,“ segir Ólafur, sem starfar á níundu hæð í Húsi verslunarinnar í Reykjavík.

„Það eru búnir að koma nokkuð margir eftirskjálftar og það er eins og það komi högg á húsið og svo sveiflast það í dálitla stund á eftir. Þetta er traustleikamerki. Það er greinilega góð stálgrind í húsinu,“ segir hann og bætir við að fjarfundurinn hafi haldið áfram þrátt fyrir lætin, enda um rammíslenskan veruleika að ræða. 

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Ljósmynd/Aðsend

„Við höfum engar áhyggjur af þessu en þetta er pínu óþægilegt. Maður er kominn með svolitla sjóriðu,“ segir Ólafur, sem sagðist einmitt í stöðuuppfærslu á Facebook sakna sjóveikistaflanna.

Þegar síðasti stóri jarðskjálfti varð var Ólafur ekki staddur í húsinu en vinnufélagar hans segjast hafa fundið meira fyrir honum. Hann segir þennan skjálfta vafalítið þann stærsta sem hann hefur fundið fyrir. „Það kemur fyrir að húsið ruggi í stormum en þetta var mun öflugra.“

Þarftu ekki að kaupa þér sjóveikistöflur til að hafa í skrifborðsskúffunni?

„Ef þetta heldur svona áfram þá eru þær augljóslega á innkaupalistanum,“ segir hann og hlær.

mbl.is
Loka