Segir menningu óskipulags á Alþingi

Björn Leví er lítt hrifinn af því skipulagi, eða óskipulagi …
Björn Leví er lítt hrifinn af því skipulagi, eða óskipulagi sem er á störfum Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um fimm tímum áður en Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, átti að setjast á forsetastól Alþingis fékk hann póst þess efnis. Björn Leví segir þetta daglegt brauð á Alþingi og að þar sé mikill skipulagsvandi. Hann telur að með betra skipulagi hefði getað verið mögulegt að koma í veg fyrir að atvinnuleysi yxi eins mikið og það hefur gert á síðustu mánuðum. 

Björn Leví segir fleiri dæmi um óreiðu í skipulagi sem geri þingmönnum erfitt fyrir. Til dæmis fá nefndarmenn almennt ekki fundargögn áður en kynningar eru haldnar svo þeim reynist erfitt að undirbúa sig fyrir þær. Þá er dagskrá þingfundar ekki tilkynnt fyrr en fyrri þingfundi er lokið o.s.frv.

„Maður fær ekki dagskrá næsta þingfundar fyrr en þingfundi dagsins er lokið því þá eru málin sem komust ekki á dagskrá færð yfir á morgundaginn. Ef fundurinn er til miðnættis þá fær fólk ekki að vita hvaða mál eru á dagskrá daginn eftir fyrr en mjög seint. Fólk getur gert með sér menntaða ágiskun en það er samt að bíða eftir því hvort málið þeirra er að komast inn á dagskrá seint um kvöldið sem kemst síðan kannski ekki á dagskrá,“ segir Björn Leví í samtali við mbl.is.

„Við erum alltaf í þessum flýtiviðbrögðum – að hoppa til …
„Við erum alltaf í þessum flýtiviðbrögðum – að hoppa til og reyna að redda málunum eins og þau eru fyrir framan okkur núna. Með því getum við aldrei skipulagt til langs tíma,“ segir Björn Leví. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ekki heilbrigt fyrir neinn

Hann telur að meint skipulagsleysi geti komið niður á störfum þingmanna. Í nágrannalöndunum sé mun betra skipulag á störfum þingsins og bendir Björn Leví á að einkageirinn sé kominn mun lengra í þessum efnum en þingið.

En eiga þingmenn ekki einmitt að vera sveigjanlegir og tilbúnir í að taka að sér þau verkefni sem koma upp á meðan þinghald er?

„Tvímælalaust ef það er eitthvað akút en þetta snýst um fyrirsjáanlegt skipulag. Þegar það er ekki einu sinni skipulag á þáttum sem er mögulegt að hafa fyrirsjáanlegt skipulag á er maður alltaf í viðbragðsstjórnun. Það er ekki heilbrigt fyrir neinn. Hvað þá fagleg vinnubrögð, löggjafar-, framkvæmdar- og fjárveitingavalds.“

„Skipulagt kaos“ í faraldrinum

Björn Leví segir að í upphafi kórónuveirufaraldursins hafi stjórnvöld gert ráð fyrir stuttum faraldri.

„Þannig varð til skipulagt kaos, það var aldrei búið til skipulag fyrir það að þetta yrði langtímaástand,“ segir Björn Leví.

„Við erum alltaf í þessum flýtiviðbrögðum – að hoppa til og reyna að redda málunum eins og þau eru fyrir framan okkur núna. Með því getum við aldrei skipulagt til langs tíma.“

Atvinnuleysi hefur farið vaxandi hérlendis síðan kórónuveiran fór að dreifast um heimsbyggðina. Björn Leví segir að atvinnuleysi væri minna ef stjórnvöld hefðu sett upp langtímaáætlun.

 „Það er menning óskipulags á þingi sem er eyðileggjandi. Ég geri beina tengingu á milli þeirrar menningar og þess ástands sem er núna í dag hvað varðar atvinnuleysi. Ég get ekki sagt hversu mikið minna atvinnuleysi væri, það væri bara algjör ágiskun, en það væri minna því við hefðum skipulagt okkur öðruvísi.“

mbl.is